Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þrumuveður á Suðurlandi

30.07.2021 - 17:18
Mynd: Bjarki Sigurðsson / Bjarki Sigurðsson
Eldingum hefur slegið niður í Bláskógabyggð í dag. Fréttastofu hafa borist nokkrar ábendingar þess efnis og Veðurstofu sömuleiðis.

Í tilkynningu frá Rarik kemur fram að rafmagni hafi slegið út á svæðinu og hafa fréttastofu borist ábendingar um rafmagnsleysi í sumarbústaðabyggð í Biskupstungum og Bláskógabyggð. Unnið er að því að finna hvar bilunin kom upp.

Landsnet hafði fyrr í dag varað við hættunni á svæði sem nær frá Þingvöllum og Sogi í vestri, austur um uppsveitirnar og hálendisbrúnina, að Heklu og Fljótshlíð. 

Ingibjörg Jóhannesdóttir veðurfræðingur segir í samtali við fréttastofu að hitauppstreymi valdi því að ský hlaðist og gæti eldingum áfram slegið niður en þó líklega ekki fram eftir kvöldi.

Á heimasíðu almannavarna er að finna ábendingar um hvernig fólk skal bera sig að í eldingaveðri. Fólki er ráðlagt að forðast vatn, hæðir í landslagi og berangur, stór tré, straura, girðingar og önnur mannvirki sem gætu hrunið.

Best er að halda sig innanhúss og forðast tæki sem eru í sambandi við rafmagn.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV