Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sjúklingur og starfsmaður reyndust ekki með covid

Landspítalinn við Hringbraut.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Starfsmaður og sjúklingur á blóð- og krabbameinslækningadeild Landspítala losnuðu úr einangrun í dag, degi eftir að skimun gaf til kynna að þeir kynnu að vera sýktir af covid. Niðurstöður þeirrar skimunar voru ekki afgerandi og voru viðkomandi því skimaðir aftur. Þá kom í ljós að þeir voru ekki smitaðir.

Sjúklingurinn og starfsmaðurinn greindust með covid við reglubundna skimun en niðurstöðurnar voru þó með þeim hætti að vafi lék á því að þeir væru raunverulega smitaðir. Við þessar aðstæður er þó gripið til ráðstafana til að koma í veg fyrir útbreiðslu smits, ef vera kann að smitið sé raunverulegt. Báðir voru sendir í einangrun, sjúklingar á deildinni í sóttkví og starfsfólk í vinnusóttkví. Ný sýni voru tekin og þau leiddu í ljós að ekki var um raunverulegt smit að ræða. Því var einangrun og sóttkví aflétt.

Hildur Helgadóttir í farsóttanefnd Landspítala segir það afar sjaldgæft að fá slíkar niðurstöður úr skimun. Alla jafna séu þær afgerandi um hvort fólk sé smitað eða ekki. Þetta hafi þó gerst áður, á hjartadeild upp úr áramótum. Engin áhætta sé tekin við þessar aðstæður. 

Nokkur fjöldi starfsmanna er í vinnusóttkví en útlit fyrir að stór hluti sleppi úr henni í dag eða á morgun. Sýni hafa verið tekin úr starfsfólki í vinnusóttkví í dag og verður því fram haldið á morgun. Enn sem komið er hefur enginn í vinnusóttkví greinst með smit. 120 eru skráð í vinnusóttkví, 20 í sóttkví og átján í einangrun.

Enn eru níu sjúklingar inniliggjandi á Landspítala með covid, þar af tveir á gjörgæslu. Á hádegi voru 1.066 í eftirliti covid-göngudeildar, þar af 132 börn. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV