Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sextugir og eldri fá þriðju sprautuna í Ísrael

epa09379143 Israeli President Isaac Herzog (C) receives a third coronavirus vaccine injection while his wife Michal (L) reacts at Sheba Medical Center in Ramat Gan, Israel, 30 July 2021.  EPA-EFE/MAYA ALLERUZZO / POOL
Isaac Herzog, forseti Ísraels, og Michal, eiginkona hans, voru bólusett í þriðja sinn í dag.  Mynd: AP
Bólusetningarátak hófst í Ísrael í dag þegar forseti landsins og eiginkona hans fengu þriðju sprautuna gegn kórónuveirunni. Hún stendur öllum landsmönnum til boða sem orðnir eru sextíu ára og eldri. Smitum hefur farið fjölgandi í Ísrael að undanförnu.

Átakið hófst formlega í dag á sjúkrahúsi í borginni Ramat Gan. Isaac Herzog forseti, sextugur að aldri, og Michal, eiginkona hans, fengu þá þriðju Pfizer-BioNTech sprautuna. Naftali Bennett forsætisráðherra var viðstaddur. Hann sagði að þar með væru Ísraelsmenn orðnir brautryðjendur í þeirri viðleitni að verja þá sem orðnir eru sextíu ára og eldri.

Bólusetningarátak Ísraelsmanna gegn kórónuveirunni hófst í desember. Lengi vel voru þeir í fararbroddi meðal þjóða heims vegna forskots sem þeir náðu í samningum við framleiðendur bóluefnanna. 55 prósent þjóðarinnar teljast fullbólusett. Ísraelsmenn hafa þó fengið að kenna á hinu bráðsmitandi delta-afbrigði veirunnar. Yfir fjórtán hundruð smit voru greind í gær. Á annað hundrað liggja þungt haldnir á sjúkrahúsum. Margar smitvarnir sem voru afnumdar fyrr í sumar hafa verið teknar upp aftur, svo sem grímuskylda á almannafæri. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV