Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Nábrókin heldur velli og búist við rífandi stemmningu

30.07.2021 - 15:49
Mynd með færslu
Mynd: Ellen Björg Björnsdóttir/FB-síða Nábrókarinnar Mynd: Ellen Björg Björnsdóttir/Face
Smáhátíðin Nábrókin í Trékyllisvík á Ströndum er ein örfárra sem fara fram um verslunarmannahelgina þrátt fyrir veirutakmarkanir. Þau sem mæta á fjárhústónleika í kvöld þurfa að skrá sig í stíu. Skipuleggjandinn býst ekki við holskeflu vestur.

Galdrarnir eigi lögheimili á Ströndum

„Við náum að halda henni nokkurn veginn gangandi, þrátt fyrir takmarkanir,“ segir Ellen Björg Björnsdóttir, ein skipuleggjenda. Hún býr að reynslunni frá í fyrra, þá hélt Nábrókin velli þrátt fyrir að einungis hundrað mættu koma saman. Nábrókarnafnið vísar í galdrana, en Ellen segir þá einmitt eiga lögheimili á Ströndum. Í kvöld fara fram tónleikar í fjárhúsinu á Melum þar sem Ellen treður upp ásamt systrum sínum og það er búið að hugsa fyrir sóttvörnum, hver hópur fær eina kindastíu. „Fólk sendir inn nöfn og kennitölur, hvað séu margir og þá getum við skipt þeim í hólf og passað að það sé alltaf metri á milli, fólk setur þá kannski upp grímur til að labba inn og út úr stíunni sinni.“

Mýrarboltinn slapp í ár

Á morgun verður svo mýrarbolti og sjö lið þegar búin að skrá sig til leiks. „við sluppum fyrir horn með hann af því að keppnisíþróttir eru leyfðar, sem var ekki í fyrra, við þurftum að slútta honum þá,“ segir Ellen. Á ísafirði var Mýrarboltanum aftur á móti aflýst. 

Mynd með færslu
 Mynd: Ellen Björg Björnsdóttir/Face
Björn og Skúli útbjuggu mýrarboltavöll fyrir hátíðina. Mynd: Ellen Björg Björnsdóttir/FB-síða Nábrókarhátíðarinnar.

Djammþyrst fólk í fyrra

Það eru einkum Strandamenn sem flykkjast á Nábrókina, Árneshreppsbúar fyrr og nú. „Allir eru í góðu skapi og þetta er svo skemmtilegt fólk, gaman að láta það vera saman. Fólk var orðið svolítið djammþyrst um verslunarmannahelgina í fyrra, svo langt síðan það hafði mátt gera eitthvað, þetta var alveg rífandi góð stemmning þá þannig að við búumst bara við öðru eins núna.“ 

En óttast hún ekkert að fá holskeflu af fólki vestur, nú þegar flestar aðrar hátíðir falla niður? „Jú, ég get skilið þannig áhyggjur. Þetta er náttúrulega frábær staður til að vera á og frábært veður hérna núna og verður örugglega á morgun. Sem betur fer er þetta kannski ekki það umtöluð hátíð að fólki detti þetta í hug og kannski verður bara smá þoka á morgun og þá þorir enginn að koma, þá verða þetta bara við.“

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia/Galdrasafnið á Strö
Nábrók er síðbrók gerð úr húð látins manns, brókin átti að gera eigandann ríkan. Mynd: Wikipedia/Galdrasafnið á Ströndum.
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV