Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Meira en 200 þúsund skoðað eldgosið

Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson / RÚV
Mikil uppbygging hefur átt sér stað við eldstöðvarnar á Fagradalsfjalli til þess að taka við þeim fjölda fólks sem sækir þær heim á degi hverjum. Bílastæði, kamrar og jafnvel veitingasala, enda margir þyrstir og svangir eftir gönguna.

Margir við gosstöðvarnar í dag

Fjöldi fólks nýtti sér góða veðrið í dag og nótt til þess að skoða eldstöðvarnar og þyrlur sveimuðu þar yfir í allan dag. Meira en tvö hundruð þúsund manns hafa heimsótt eldstöðvarnar.
Gjald er tekið fyrir bílastæði sem komið hefur verið fyrir á svæðinu, og þar er búið að koma upp útikömrum. Helgi J. Helgason, veitingamaður, er þar með veitingavagn, og selur þreyttum og svöngum gosförum pylsur og annað góðgæti. Hann segir alltaf nóg að gera. „Bilað að gera. Það breytir engu hvernig veðrið er. Hér er fólk að koma þó að það sé þoka niður í bílþök,“ segir Helgi. 

Mikið rennsli og kraftur á ný

Eftir rólegan dag í gær jókst gosóróinn aftur undir kvöld og hraun fór að flæða upp á yfirborðið á ný. Tignarlegur gosmökkurinn sást vel frá höfuðborgarsvæðinu, enda kraumaði vel í gígnum fram eftir degi.

Hraunið flæðir nú allt í Meradali. Gosvirknin breyttist í lok júní og varð mjög sveiflukennd. Lengst stóð goshlé í fjóra sólarhringa. Í byrjun þessa mánaðar hafði hraunrennslið minnkað verulega og útlit fyrir að eldgosið gæti jafnvel fjarað út. En síðan tók það skyndilega aftur við sér. 

En eldgosið er ólíkindatól, og eftir því sem leið á daginn dró skyndilega úr krafti þess. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir að spáin sé gerð út frá þeirri sviðsmynd sem uppi er hverju sinni. Nú hafi hraunrennslið aukist á ný og ómögulegt að segja til um hvenær eldgosinu lýkur.