Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fjöldi fólks skoðaði kraumandi eldgosið í nótt

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gott veður og hlýtt var á gosstöðvunum á Reykjanesskaga í nótt, 17-18 stiga hiti og margir notuðu tækifærið til að skoða sjónarspilið.

Náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni segir að veðurspáin sé góð um helgina og reiknar með því að fjöldi manns nýti sér góða veðrið til að skoða eldstöðvarnar.

Það kraumar vel í gígnum á Fagradalsfjalli eins og sjá má á vefmyndavél RÚV. 

„Gosóróinn jókst um aftur um klukkan 18 í gærkvöldi og um átta eða níuleytið í gærkvöldi byrjaði hraun að flæða upp á yfirborðið aftur. Það er búið að vera mjög rólegt veður, mjög lítill vindur og mjög heitt á gossvæðinu, svona 17-18 stiga hiti. Einnig við Festarfjall þannig að hitinn er staðfestur á fleiri mælitækjum þar,“ segir Bjarki Kaldalóns Friis náttúruvársérfræðingur sem var á vakt á Veðurstofunni í nótt.  Hann segir að margir hafi rölt um gossvæðið.

„Hraunið flæðir bara ennþá áfram áfram niður í Meradali og er búið að gera það frá því í gærkvöldi.“

Nú ertu að spá fínu veðri, má ekki reikna með að þetta verði aðal útivistarsvæðið um þessa helgi?

„Jú það verður líklega það, spáð er flottu veðri á suðvestur horninu fram yfir helgi.“

Þú mælir með þvi að menn skoði gosið núna hafi það ekki gert það?  

„Já það er auðvitað um að gera á meðan maður sér að hraunið er að flæða svo maður fari ekki fýluferð upp,“ segir Bjarki Kaldalóns Friis.