Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Einhvers konar ein með ýmsu um helgina

30.07.2021 - 13:22
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Eins og aðrar hátíðir hefur fjölskylduhátíðin Ein með öllu á Akureyri verið slegin af. Skipuleggjandi hátíðarinnar þakkar fyrir að henni hafi verið aflýst með lengri fyrirvara en í fyrrasumar.

 

Ein með ýmsu

Davíð Rúnar Gunnarsson hefur komið að skipulagningu Einnar með öllu um árabil. Í ár líkt og í fyrra hefur henni verið aflýst. Einhverjir viðburðir verða þó um helgina þó varla sé hægt að tala um Eina með öllu. Davíð segir að kalla megi þessa helgi hvað sem er, en ein með öllu sé hún ekki.

„Við erum búin að kalla hana ein með ýmsu, ein með engu, ein með litlu, mini ein með öllu. En ein með öllu, það er auðvitað búið að blása hana af en við erum að reyna að halda utan um litla viðburði sem eru í bænum sem að er komið leyfi fyrir,“ segir Davíð.
 

Nóg skemmtilegt hægt að gera

Í fyrra var hátíðinni sömuleiðis aflýst en þá á fimmtudeginum fyrir verslunarmannahelgina. Davíð segist þakklátur fyrir að hátíðarhöldin voru nú slegin af borðinu með töluvert betri fyrirvara. 

Davíð segir þó að nóg verði í sjálfu sér um að vera um helgina. 

„Við erum með þetta á einmedollu.is þar er hægt að skoða hvað er í gangi. Þetta eru allt svona minni viðburðir, mest fyrir krakka. Það er náttúrulega stórt hjólamót í bænum sem Hjólreiðafélag Akureyrar er með. Það er Súlur Vertical hlaupið. Rafhjólaklúbburinn á Akureyri er með hjólamót upp í fjöllum. Kjarnaskógur verður að sjálfsögðu opinn, um að gera að taka krakkana og kíkja í Kjarna. Það er svona hitt og þetta. Kirkjutröppuhlaupið verður, sem er náttúrulega skemmtilegt fyrir alla krakka að koma á.

Davíð segir að það verði alveg gaman um helgina þrátt fyrir allt. „Það er aldrei leiðinlegt á Akureyri, aldrei!“