Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

17% hafa nýtt ferðagjöfina

30.07.2021 - 12:55
Mynd með færslu
 Mynd: Anna Þorbjörg Jónasdóttir - RÚV
Landsmenn hafa nýtt um 248 milljónir króna af ferðagjöf stjórnvalda. Það eru um 17 prósent af heildarfjárhæð gjafarinnar, það er ef allir landsmenn nýttu sér hana.

Þetta kemur fram á mælaborði ferðaþjónustunnar.

Um 290 þúsund manns, allir landsmenn sem fæddir eru 2003 eða síðar, eiga rétt á gjöfinni, en aðeins hafa um 51 þúsund nýtt sér gjöfina, ýmist að hluta eða heild. Þá hafa 42 þúsund til viðbótar sótt sér gjöfina í símann án þess að nýta hana.

Mest nýtt á höfuðborgarsvæðinu

Mestur hluti ferðagjafarinnar hefur verið nýttur hjá fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu, eða um 94 milljónir króna en minnst á Vestfjörðum, fjórar milljónir.

Þá hafa 56 milljónir verið nýttar hjá svokölluðum „landsdekkandi fyrirtækjum“  – með starfsstöðvar í fleiri landshlutum – en ekki fást upplýsingar um það hvar á landinu þær voru nýttar.

Jarðböð, skyndibiti og bensín

N1 er það fyrirtæki sem mest hefur fengið í sinn hlut, eða um 20 milljónir króna. Næst á eftir er Sky Lagoon

Ferðagjöf var fyrst gefin í fyrrasumar til að bregðast tímabundið við neikvæðum áhrifum kórónuveirufaraldursins á starfsemi ferðaþjónustufyrirtækja en leikurinn var síðan endurtekinn í sumar.

Fjárhæð hennar er 5.000 krónur en hana má nýta til að greiða fyrir hótelgistingu, menningarviðburði, afþreyingu og veitingar og samgöngur, svo eitthvað sé nefnt.