Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Viðvarandi vandi með sjúkraflutninga í Vestfjarðagöngum

29.07.2021 - 19:50
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Sjúkraflutningamenn tefjast um allt að þrjár mínútur við það eitt að keyra í gegnum Vestfjarðagöng. Þetta segir lögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum. Það munar um mínúturnar þrjár þegar flytja þarf bráðaveikt fólk eða ef slys verða á fólki. Göngin eru einbreið og því ekki mikið rými til þess að víkja.

Lögregluþjónn á Ísafirði segir að um viðvarandi vanda sé að ræða og eigi hann aðeins eftir að versna með tímanum. Mikil umferð hafi verið í gegnum göngin í sumar. Nú síðast í kvöld lenti sjúkrabíll í vandræðum með að aka í gegnum göngin en hann var að flytja mann á sjúkrahúsið á Ísafirði. Lögreglan á Ísafirði segir það ekkert einsdæmi. 

Vestfjarðagöng eru rúmlega níu kílometra löng og tengja þau Ísafjörð, Suðureyri og Flateyri. Greitt aðgengi í gegnum göngin skiptir miklu máli fyrir viðbragðsaðila á Vestfjörðum þar sem vegalengdir geta verið langar. 

 

Katrín María Timonen
Fréttastofa RÚV