Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Væsir ekki um fjölskyldu í einangrun í Eyjum

29.07.2021 - 09:20
Mynd með færslu
 Mynd: Olga Möller
Sumarfrí fjögurra manna fjölskyldu í Hafnarfirði breyttist snögglega eftir að bræðurnir Elvis og Flóki greindust með covid-smit þegar þeir voru í heimsókn hjá ömmu sinni og afa í Vestmannaeyjum. Stór hluti fjölskyldunnar smitaðist í kjölfarið en Eyjamenn hafa séð til þess að gera einangrunina bærilega.

Bræðurnir Elvis og Flóki sem eru átta og tíu ára greindust báðir með kórónuveiruna um síðustu helgi. Þeir voru þá komnir í sumarheimsókn til ömmu sinnar og afa sem búsett eru í Vestmannaeyjum.

Mynd með færslu
 Mynd: Olga Möller
Það er vel hægt að hafa það huggulegt í einangruninni

Stór hluti fjölskyldunnar smitaðist þá í kjölfarið og er nú kominn í einangrun. Olga Möller, móðir drengjanna, segir einangrunina hafa gengið mjög vel en Eyjamenn koma daglega með gjafir, bakkelsi og leikföng svo eitthvað sé nefnt. 

„Það er búið að vera að banka á dyrnar okkar daglega með eitthvað nýbakað, eða eitthvað úr bakaríi, með föndur fyrir börnin og ís. Svo er eigandi Tvistsins, sem er sjoppa í Vestmannaeyjum, hann kom sér í samband við okkur líka og kom með pakka handa okkur. Bland í poka og nammi og svona til að stytta okkur stundir,“ segir Olga og bætir við að þau hafi haft það gott.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Olga Möller

„Ég hefði bara hvergi annars staðar viljað vera í einangrun heldur en í Vestmannaeyjum. Verandi Vestmannaeyingur þá veit ég alveg hvernig samfélagið bregst við svona leiðindafréttum og þessar hundleiðinlegu aðstæður eru búnar að vera bara mjög bærilegar,“ segir hún að lokum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Olga Möller
Fjölskyldan ber sig vel
Katrín María Timonen
Fréttastofa RÚV
Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV