Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skylda starfsfólk til bólusetningar við COVID-19

epa09374436 A person receives a vaccine shot against COVID-19 at an inoculation center, Santiago, Chile, 27 July 2021 (issued 28 July 2021). Chile has had a successful vaccination drive so far as almost 80 percent of the target population is now vaccinated against COVID-19. The Latin American country is recording low numbers of coronavirus cases.  EPA-EFE/car
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Bandarísk stórfyrirtæki, alríkið, einstök ríki og borgir ætla eða hafa þegar tekið upp bólusetningarskyldu starfsmanna. Verkalýðsfélög og fleiri telja það brot á persónuréttindum fólks.

 

Þeir starfsmenn tæknirisanna Google og Facebook sem ætla sér að koma til starfa á skrifstofum fyrirtækjanna þurfa að vera bólusettir við COVID-19.

Smitum af völdum Delta-afbrigðisins hefur fjölgað mjög í Bandaríkjunum undanfarið líkt og víða um heim og því telja stjórnendur fyrirtækjanna brýnt að grípa til þessa ráðs.

Google hyggst framlengja heimildir til starfsfólks síns til heimavinnu til 18. október næstkomandi. Það ásamt bólusetningarskyldunni á við um starfsstöðvar fyrirtækisins um allan heim.

Bæði Facebook og Google gripu til þess bragð þegar faraldurinn tók að breiðast út á síðasta ári að heimila starfsmönnum að vinna heima. 

AFP-fréttaveitan hefur eftir Sundar Pichai, forstjóra Google að hann vonist til að þessar ráðstafanir veiti starfsfólkinu hugarró þegar það snýr aftur til starfa. Hann segir fyrirtækið hafa aðstoðað starfsfólk við að verða sér úti um bólusetningu og greitt þeim laun sem ekki hafa getað mætt til vinnu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í gær að ekki væri útilokað að skylda ríkisstarfsmenn í bólusetningu.

Tilkynnt hefur verið í  Kaliforníuríki og New York-borg að opinberum starfsmönnum beri að láta bólusetja sig eða fara ella vikulega í sýnatöku. 

Gagnrýnisraddir hafa heyrst varðandi bólusetningarskyldunna, til að mynda frá verkalýðsfélögum sem segja hana vera brot á persónuréttindum.