Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Pólítísk óvissa ríkir enn í Túnis

epa09371590 Tusian army is monitoring the main street Habib Bourguiba, in Tunis, Tunisia, 27 July 2021. The Ennahda party has called for dialogue following President Saeid's sacking of the prime minister Mechichi and suspension of parliament on 25 July.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Pólítísk óvissa eykst enn í Túnis en Kais Saied forseti landsins rak fleiri embættismenn í gær, nokkrum dögum eftir að hann rak Hichem Mechichi forsætisráðherra landsins og skipaði þingmönnum í þrjátíu daga leyfi.

Borgaraleg öfl í landinu vara við öllum ólögleglum tilraunum forsetans til að framlengja leyfið en talsmenn stjórnarflokksins Ennahdha saka hann um valdarán.

Bandaríkin, Evrópusambandið og fleiri ríki hafa lýst þungum áhyggjum af stöðu mála í Túnis. Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakka, hvatti til þess í gær að nýr forsætisráðherra og ríkisstjórn yrðu skipuð án tafar.

Efnahagsástand Túnis er bágborið, stjórnmál óstöðug og innviðir í molum auk þess sem kórónuveirufaraldurinn hefur bætt gráu ofan á svart. 

Fjöldi embættismanna rekinn

Saied forseti hélt uppteknum hætti á mánudag þegar hann lét varnarmála- og dómsmálaráðherra landsins taka pokann sinn. Í kjölfarið fékk fjöldi háttsettra embættismanna sömu útreið, þar á meðal æðsti saksóknari hersins.

Í gær rak Saied forstjóra ríkissjónvarpsstöðvarinnar Wataniya, hann hefur einnig ógilt friðhelgi þingmanna og tekið dómsvald í eigin hendur.

Saksóknari tilkynnti í gær að rannsókn væri hafin á ólöglegum greiðslum til stjórnarflokksins Ennahdha og tveggja annarra í aðdraganda kosninga. Forsetinn kveðst í fullum stjórnarskrárvörðum rétti að að grípa til sinna ráða ef „bráð hætta“ vofi yfir. 

Þarf að vanda val sitt

Said tók við völdum í október 2019, en hann sigraði með yfirburðum í forsetakosningum það ár. Hann var prófessor í lögum og hafði enga fyrri reynslu af stjórnmálum.

Forsetinn hefur sagst ætla sér að yfirtaka framkvæmdavaldið með fulltingi forsætisráðherra og ríkisstjórnar sem hann sjálfur muni skipa. Forysta Ennahdha-flokksins lýsti á þriðjudag vilja sínum til að efna til þing- og forsetakosninga til að tryggja lýðræði í landinu. 

Áður en til kosninga komi þurfi þingið þó að snúa aftur til starfa og herinn að láta af öllum afskiptum af stjórnmálum, hefur AFP-fréttaveitan eftir Noureddine B'Hiri, háttsettum flokksmanni. 

Tíu ár eru síðan einræðisherranum Zine El Abidine var steypt af stóli í byltingu sem var hluti af Arabíska vorinu svonefnda en margir íbúar Túnis segja lífskilyrði lítið hafa batnað.

Alls hafa níu stjórnir setið að völdum frá byltingu en stjórninni sem forsetinn vék frá var mjög legið á hálsi fyrir slæleg viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum. 

AFP-fréttaveitan hefur eftir túníska stjórnmálafræðingnum Slaheddine Jourchi að Said þurfi að vanda val sitt á forsætisráðherra mjög, en hann þurfi að sýna Túnisum og heiminum öllum að ákvarðanir hans hafi verið réttar.