Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Öll jörðin titraði eftir Alaska-skjálftann

29.07.2021 - 17:12
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur.
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Jarðskjálfti að stærð 8,2 reið yfir Alaska í morgun en það er stærsti skjálfti sem þar hefur mælst í meira en hálfa öld. Skjálftinn kom jarðeðlisfræðingum ekki á óvart en beðið hefur verið eftir að jörð skylfi þar á ný eftir langt hlé.

Stærsti skjálfti frá 1964

Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði, segir að skjálftinn hafi verið viðbúinn. Þetta er þá ekki í fyrsta sinn sem skjálfti af þessari stærðargráðu ríður yfir Alaska en árið 1964 varð stærsti jarðskjálfti sem mælst hefur í Norður Ameríku, 9,2 að stærð, á sömu flekaskilum. 

„Þetta er með stærstu skjálftum sem verða á þessum slóðum. Þarna eru flekamörk og kyrrahafsflekinn sem er mjög stór. Þarna verða stórir skjálftar nokkuð reglulega, “ segir Páll. 

Öll jörðin titraði eftir skjálftann

„Þarna hafa menn haft augastað í nokkurn tíma því þarna er svokölluð skjálftaeyða sem er nú svona grundvallareiningin í því sem menn hafa bundið vonir við þegar kemur að jarðskjálftaspám. Mestar líkur á öflugum skjálftum eru þar sem lengst er um liðið frá því að stórir skjálftar urðu síðast, “ segir Páll og bætir við að skjálftinn í morgun hafi verið í grennd við slíka eyðu. 

Skjálftar af þessari stærð fá alla jörðina til að titra en Páll segir alla jarðskjálftamæla heims nema bylgjur frá skjálfta af þessari stærð. Það á einnig við um jarðskjálftamæla Veðurstofu Íslands. 

Eðlilegt að gefa út flóðbylgjuviðvörun í Alaska 

Greint var frá því fyrr í dag að gefin hafi verið út flóðbylgjuviðvörun í Alaska í kjölfar skjálftans. Slík viðvörun er þá alltaf gefin út ef skjálfti fer yfir sjö stig umhverfis kyrrahafið, að sögn Páls. Viðvörunin er þá dregin til baka ef engin flóðbylgja verður til og það er það sem gerðist í Alaska í morgun.