Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hraunrennsli aukist og allt hraun rennur í Meradali

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmdi í vikunni nýjar mælingar á hraunflæði. Samanburður gagna bendir til þess að gosið hafi vaxið á ný.

Flogið var yfir gosstöðvarnar og myndir teknar á þriðjudaginn 27. júlí. Aðstæður voru góðar en gosmökk lagði þó yfir hluta Geldingadala og syðsta hluta Nátthaga. Gerð hafa verið landlíkön eftir mælingunum og þau borin saman við eldri gögn.

Eins og fram hefur komið breyttist gosvirknin í lok júní. Tók hún þá að sveiflast á milli tímabili þar sem hraunrennsli var öflugt á milli þess sem kyrrð var í gosinu. Lengst stóð goshlé í fjóra sólarhringa. Fram kemur í tilkynningu Jarðvísindastofnunar að frá 17. júlí hafi meiri regla verið á virkninni.

Öflugt hafi gosið í 10-15 tíma með álíka löngum hléum á milli.

Meðalhraunrennsli á tímabilinu frá 2.- 27. júlí mældist um ellefu rúmmetrar á sekúndu. Meðalrennslið frá 2. júlí til þess 19. var á milli átta og níu rúmmetra á sekúndu.

Hraunið er nú 109 milljón rúmmetrar og flatarmál hraunbreiðunnar 4,3 ferkílómetrar. Nýjasta mælingin bendir til þess að hraunrennsli hafi vaxið á ný en fyrri mælingar höfðu bent til þess að gosið væri minnkandi. Nú er engin leið til að segja til um goslok samkvæmt því sem segir í tilkynningu Jarðvísindastofnunar.

 

 

Andri Magnús Eysteinsson