Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hjóla í gegnum þrenn göng

29.07.2021 - 16:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Yfir 100 hjólreiðamenn munu hjóla í gegnum þrenn göng á Norðurlandi í dag. Þeir verða ræstir frá Siglufirði og hjóla til Akureyrar. Viðburðurinn er hluti af hjólreiðahátíð á Akureyri.

Viðburðir daglega í rúma viku

Mótið er hluti af stigamótaröð Hjólreiðafélags Íslands en nú stendur yfir hjólreiðahátíð á Akureyri. Árni F. Sigurðsson er formaður Hjólreiðafélags Akureyrar sem skipuleggur hátíðina.

„Hún er nú haldin í  5. eða 6. skipti. Við byrjuðum síðasta laugardag og klárum núna á sunnudaginn. Það eru viðburðir alla daga, í öllum greinum hjólreiða. Við erum í dag [29. júlí] í bikarmóti í götuhjólreiðum, þá hjólum við á Siglufirði og endum uppi í Hlíðarfjalli,“ segir Árni.

Einstakt tækifæri að hjóla í göngunum

Keppendur hjóla mislanga vegalengd eftir flokkum en lengst rúmlega 100 kílómetra. Hjólað er í gegnum bæði Héðinsfjarðargöng og Múlagöng.

Aðspurður hvernig sé að hjóla í göngum segir Árni það kannski ekki kjöraðstæður. „Það er rakt og svalt og Múlagöngin eru einbreið og þröng þannig að þetta er svona pínu strögl. En það er ekkert annað tækifæri til að hjóla svona leið í keppni,“ segir Árni.

Hugað að sóttvörnum

Árni segir að einhverjir hafi afboðað sig vegna aðstæðna í samfélaginu en vel sé hugað að sóttvörnum.

„Við skiptum upp ráshópunum. Og í raun skiptum við þessu þannig að sumir hóparnir hittast aldrei. Verðlaunaafhendingin fer fram á tveimur stöðum og við bíðum ekki eftir öllum keppendum við verðlaunaafhendinguna. Við veitum þeim þau jafnóðum þannig að fólk sé ekki að safnast saman og bíða.“

Árni hvetur almenning til að kynna sér dagskrána á síðu Hjólreiðafélagsins. Einnig sé hægt að koma og fylgjast með viðburðum en þeir eru auðvitað allir utandyra og á stóru svæði og falli því að sóttvarnareglum.