Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Evrópuævintýrið á enda hjá Val og FH

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Evrópuævintýrið á enda hjá Val og FH

29.07.2021 - 18:57
Valur og FH eru bæði úr leik í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu. Seinni leikir 2. umferðar fóru fram í dag en bæði lið spiluðu á útivelli, Valsmenn mættu Bodö/Glimt og FH mætti Rosenborg.

Valsmenn voru 3-0 undir í einvíginu eftir tap í fyrri leik liðanna í síðustu viku. Það var því á brattann að sækja ætluðu þeir sér að komast áfram og útlitið skánaði ekki þegar Ulrik Saltnes skoraði fyrsta mark leiksins á 26. mínútu og staðan 1-0 í hálfleik fyrir Bodö/Glimt. Brede Moe tvöfaldaði forystu Norðmannanna á 61. mínútu og Elias Hagen innsiglaði svo 3-0 sigur Bodö/Glimt í uppbótatíma. Íslenski landsliðsmaðurinn Alfons Sampsted spilar með Bodö/Glimt sem vann einvígið 6-0 og er komið í 3. umferð forkeppninnar. 

Staðan var heldur ekki góð fyrir FH-inga fyrir leik liðsins við Rosenborg en fyrri leikur liðanna hafði tapast 2-0. Markalaust var í fyrri hálfleik en á 49. mínútu kom Dino Islamovic Rosenborg yfir. Staðan var svo orðin 2-0 fimm mínútum síðar þegar Stefano Vecchia bætti við marki. Guðmann Þórisson klóraði í bakkann fyrir FH á 74. mínútu en Rosenborg svaraði þá með tveimur mörkum frá Emil Konradsen Ceide og lokatölur 4-1 og samtals í 6-1 í einvíginu. 

Evrópuævintýrið er því á enda hjá bæði Val og FH en Breiðablik á enn möguleika á að komast í 3. umferð í forkeppninni sigri þeir Austria Wien í leik sem fram fer á Kópavogsvelli í kvöld.