Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Almannavarnir leiðrétta svar Víðis um sekt á landamærum

Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir
Ferðamenn sem koma hingað til lands þurfa að framvísa neikvæðu covid-prófi. Þá gildir einu hvort þeir eru íslenskir eða erlendir. Þeir sem ekki hafa vottorð um neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku meðferðis gætu þurft að greiða 100 þúsund króna sekt við komuna til landsins. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum sem jafnframt er leiðrétting á orðum Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, á upplýsingafundi Almannavarna fyrr í dag. 

Á upplýsingafundinum kom fram að þeim sem ekki hefðu neikvæða niðurstöðu meðferðis yrði aðeins gert að fara í sýnatöku á landamærunum við komuna til landsins. Fyrirmælin reyndust ekki rétt og hafa þau nú verið leiðrétt.