Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Á góðum degi er ég að fara í úrslit“

Mynd: RÚV / RÚV

„Á góðum degi er ég að fara í úrslit“

29.07.2021 - 12:30
Guðni Valur Guðnason segist hrikalega vel stemmdur fyrir því að stíga á svið á Ólympíuleikunum í Tókýó. Guðni kastar í undanúrslitum kringlukastsins í nótt og segir að á góðum degi muni hann ná í úrslit.

Guðni segir undirbúninginn hafa gengið vel en hann hefur verið að æfa mikið og keppa minna síðasta mánuðinn til þess að geta einbeitt sér að því að negla köstin sín á Ólympíuleikunum. Hann segist á góðum degi geta farið í úrslit í kringlukastinu og heldur að morgundagurinn (nóttin) verði góður dagur. 

Guðni komst inn á leikana á kvótasæti en hann segir það ekki skipta neinu máli. Lokað hafi verið á lágmörkin í fyrra, það var 66 metrar, en hann eigi best 69 metra og árangur hans sé raunar með þeim lengri í kringlunni núna.  

„Þótt að ég sé inni á kvóta þá er ég búin að jarða þetta lágmark þannig það er ekki neitt vandamál, við bara neglum á þetta og höfum gaman,“ bætir Guðni við. 

Þjálfari Guðna, Pétur Guðmundsson, segist hafa fulla trú á því að Guðni fari í úrslit og svo geti allt gerst ef honum tekst það. 

Mynd: RÚV / RÚV
Viðtal við Pétur Guðmundsson, þjálfara Guðna Vals.

En það verður annar Íslendingur á kringlukastsvellinum í nótt, Vésteinn Hafsteinn þjálfari, verður þar með tvo sænska keppendur, heimsmeistarann Daniel Ståhl og Simon Pettersson. Vésteinn segir Stålh auðvitað vera kandídatinn til að vinna á leikunum en hann er búinn að vera bestur í heimi í þrjú ár. Það sé hins vegar ekki eins og að panta pizzu að vinna gull á Ólympíuleikunum og það þurfi að standa sig. 

Vésteinn hefur sömuleiðis fylgst með Guðna Val undanfarið og telur að hann eigi góða möguleika á því að komast í úrslit í kringlukastinu. „Ég hef trú á honum og ég hugsa að hann klári þetta dæmi,“ bætir Vésteinn við. Þá sé hann ekki svekktur að Guðna hafi tekist að bæta Íslandsmet hans. Met eigi að vera bætt og Guðni sé mun meiri kringlukastari en hann nokkurn tíman var. 

„Ég er bara lítill karl sem var að reyna að kasta kringlu og gera mitt besta. En ég hafði engan kropp í það miðað við þessi naut sem ég er til dæmis að þjálfa og sem Guðni er,“ segir Vésteinn léttur að lokum. 

Mynd: RÚV / RÚV
Viðtal við Véstein Hafsteinsson má sjá hér í spilaranum fyrir ofan.