Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Til skoðunar að fjölga liðskiptaaðgerðum

28.07.2021 - 14:41
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Alma Möller landlæknir segir það forgangsverkefni stjórnvalda að styrkja heilbrigðiskerfið, almannavarnir og sóttvarnir. Hún segir rannsóknir sýna að lýðheilsa, efnahagur, lýðræði og mannréttindi séu ekki andstæðir pólar. Áströlum, Japönum, Nýsjálendingum, Suður-Kóreumönnum og Íslendingum hefur gengið betur á þessum sviðum en mörgum öðrum.

Alma segir að Íslendingar hafi komið betur út úr veirufaraldrinum í vetur heldur en hún þorði að vona. Landlæknisembættið vinni að því að gera faraldurinn upp en staðan núna sé frekar óljós. „Hún er auðvitað hulin óvissu. Við erum með þetta delta-afbrigði sem er tvöfalt meira smitandi en það sem kom þessu öllu af stað. Afbrigðið smitast hraðar og veldur meiri veikindum. Óvissan snýst um það hver áhrifin verða í bólusettu samfélagi. Þau lönd sem eru á svipuðum stað og við eru Ísrael, Bretland og kannski Malta. Við erum að fylgjast með hvað gerist þar,“ segir Alma. 

Vonbrigði hve smitin eru mörg

Hún segir að góð vörn sé í bóluefnunum gegn alvarlegum veikindum en í meira mæli hefur fólk fengið í sig veiruna og borið hana áfram. „Það kom mest á óvart og vonbrigði hve smitin eru mörg. Við þurfum að mæla hve margir eru að veikjast. Það er bara ekki komið nógu vel í ljós því skammur tími er frá því að fólk fór að smitast. Alvarleg veikindi koma ekki fram fyrr en eftir 7-10 daga frá smiti. Þess vegna viljum við fækka smitum og beitum til þess aðferðum sem við kunnum svo vel;  greina snemma, rekja smit og fara í sóttkví og verja viðkvæma hópa og innviði. Þá má ekki gleyma að COVID göngudeildin er mjög mikilvæg. Við erum að kaupa tíma með því að herða takmarkanir á meðan við erum  að sjá hvað delta-afbrigðið gerir okkur og hvernig það fer í eldra fólk og viðkvæma hópa,“ segir Alma. 

Vitum ekki hve lengi mótefnasvarið varir

Alma segir að það sé fátítt að menn smitist aftur en dæmi eru þó um það. „Við vitum ekki hve lengi mótefnasvarið varir. Gögn frá Ísrael benda til þess að mótefnasvar eftir bólusetningu dvíni með tímanum. Þess vegna er núna verið að rannsaka hjá Pfizer að bæta við þriðju bólusetningunni og þá jafnframt að uppfæra mótefnið gagnvart þessu delta-afbrigði. Mér skilst að  Pfizer hefji þá rannsókn í ágúst.“ Alma segist ekki vera sammála að bóluefnin hafi verið tekin of fljótt í notkun án nægilegra rannsókna. „Alls ekki. Það voru gerðar tugþúsundir af rannsóknum af bóluefnum. Þau voru hönnuð gegn þeim afbrigðum sem þá voru í gangi. Við höfum alltaf sagt að við gætum þurft að lifa með þessari veiru í einhvern tíma og því þurft að fá sprautu einu sinni á ári líkt og í inflúensu.“

Landlæknir vonar að persónulegar sóttvarnir séu komnar til að vera. Þær hafi skilað miklum árangri.  Þannig dró úr notkun sýklalyfja á síðasta ári og alvarlegar bakteríusýkingar voru færri. Hún útilokar ekki að það gæti þurft að grípa til opinberra sóttvarna ef bólusetningar hætta að virka eða ef vörnin dvínar og ný afbrigði koma. Þannig gæti þurft að grípa til þess að nota grímur innanhúss þar sem margir koma saman. 

Tókst að hafa góða stjórn á faraldrinum

Alma segir að styrkja þurfi heilbrigðiskerfið, almannavarnir og sóttvarnir. Hefur faraldurinn dregið úr þjónustu og gæðum hennar? „Við fylgdumst mjög grannt með þessu í upphafi þegar faraldurinn var að byrja. Þá komu fréttir frá öðrum löndum um að það væri svo mikið álag í COVID að það væri ekki hægt að sinna þeim sem fengu hjartaáfall osfrv. Við lentum ekki í þessu því okkur tókst að hafa það góða stjórn á faraldrinum. Auðvitað varð samdráttur á þjónustu í fyrstu bylgju en mun minni eða mjög lítill í þriðju. Vissulega var valkvæðum aðgerðum frestað og bið eftir þeim lengdist nokkuð. Við höfðum miklar áhyggjur af því að greining krabbameina myndi seinka en vísindamenn hjá Krabbameinsfélaginu og krabbameinsskrá fóru yfir þetta og krabbameinsgreiningum fækkaði ekki á liðnu ári.  Auðvitað getum við ekki útilokað slíkt en þetta gekk betur en við þorðum að vona. Forsenda þess að geta veitt aðra heilbrigðisþjónustu er að halda faraldrinum niðri,“ segir Alma. 

Forgangsmál að styrkja heilbrigðiskerfið

Álagið á heilbrigðiskerfinu hefur verið mikið og Alma segir að forgangur stjórnvalda sé að styrkja heilbrigðiskerfið. Þar er lykilatriðið að manna störfin á sjúkrahúsunum. „Það eru engar skyndilausnir til. Þetta snýr að því að mennta fleiri og gera starfsumhverfið svo gott að fólk vilji vinna í heilbrigðisþjónustu og hverfi ekki til annarra starfa. Við þurfum að nýta okkur tæknina til að létta undir og færa til störf til að hver og einn heilbrigðisstarfsmaður sé að gera það sem kann best.“  Geta einkafyrirtækin ekki hlaupið undir bagga og létt álaginu af Landspítalanum? „Það kemur alveg til greina og ég veit að ráðuneytið er með til skoðunar hvernig hægt sé að fjölga liðskiptaaðgerðum. Eftir því sem ég veit best verður reynt að taka á því að loknum sumarleyfum.“

Áhrifin meiri eftir því sem faraldurinn dregst á langinn

Hvað með langtímaafleiðingar? „Auðvitað óttast maður að þessi langtímaáhrif verði meiri eftir því sem faraldurinn dregst á langinn. Almenningur hefur auðvitað fært fórnir og við öll en með góðum árangri. Þess vegna finnst okkur svo mikilvægt  að fara varlega núna og taka sem minnsta áhættu til að stefna ekki þessum góða árangri í voða. Við þurfum að fara með gát og hrapa ekki að neinum ályktunum og ákvörðunum. Sem þjóð sá maður
að vonbrigðin voru áþreifanleg þegar fjórða bylgjan byrjaði en mér finnst fólk hafa náð sér og geri sér grein fyrir þeim ákvörðunum sem hafa verið teknar. Ég held að við höfum alveg seiglu og úthald sem þarf og að við stöndum áfram saman,“ segir Alma.

Arnar Björnsson