Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir ÍBV þurfa aðstoð eftir frestun þjóðhátíðar

Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Ragnarsdóttir - Aðsend mynd
Þjóðhátíðarnefnd íhugar að óska eftir ríkisstyrk vegna þess fjárhagslega skaða sem hlýst af frestun Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum. Barna- og unglingastarf ÍBV sé að miklu leyti rekið með tekjum af Þjóðhátíð og það hafi mikil áhrif á samfélagið að henni hafi verið slegið á frest.

Þetta kemur fram í Viðskiptamogganum í dag. Þar segir að tekjur af Þjóðhátíð séu um 60-70% af heildartekjum ÍBV. Á síðasta ári, þegar hátíðinni var frestað, fengu aðstandendur hennar meiri tíma til að undirbúa sig og einnig styrki frá ýmsum aðilum. Annað sé uppi á teningnum í ár þar sem hátíðahöldum um verslunarmannahelgina var aflýst með stuttum fyrirvara. Rekstraraðilar voru búnir að undirbúa sig fyrir stærstu helgi ársins, með tilheyrandi innkaupum og útgjöldum, sem ekkert verður af.

„Það er alveg 100% að félagið þarf aðstoð ef það á að lifa þetta af,” segir Hörður Orri Grettisson, formaður Þjóðhátíðarnefndar og framkvæmdastjóri Herjólfs, í samtali við Viðskiptamoggann. Hann áætlar að tekjutapið fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum í heild sé á bilinu 800-900 milljónir króna.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir í samtali við Viðskiptamoggann að frestun hátíðarinnar sé áfall fyrir samfélagið í heild. „Ríkið kom ekkert inn í þetta í fyrra og mér finnst eðlilegt að félagið taki það samtal við ríkið enda allt aðrar aðstæður en voru þá,” segir Íris. Hún segist þó reyna að vera bjartsýn á framhaldið og vona að takmarkanirnar vari stutt.