Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Óléttar konur bólusettar í hollum á Suðurlandsbraut

28.07.2021 - 19:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Barnshafandi konur, sem gengnar eru meira en 12 vikur, verða bólusettar í stórum stíl á morgun. Forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins býst við stórum Janssen-dögum seinnihlutann í ágúst. 

Ákveðið var að ráðast í bólusetningar óléttra kvenna eftir að faraldurinn tók stökk og rannsóknir leiddu í ljós að engin möguleg hættu væri af bóluefnum Pfizer og Moderna fyrir þennan hóp. Þó er ekki mælst til þess að þær sem eru gengnar styttra en 12 vikur láti bólusetja sig, en vel fer á að gera það eftir þann tíma. 

„Við erum með ákveðið skema sem kemur vel upp á heimasíðu heilsugæslunnar, hvenær fólk má mæta á morgun. Við erum ekki að senda út boð. En fólk má bara mæta í þann tíma sem kemur upp á heimasíðunni,” segir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 

Bólusett verður á Suðurlandsbraut 34 í Reykjavík. Konur fæddar í janúar og febrúar mæta á milli níu og tíu, þær sem eiga afmæli í mars og apríl á milli tíu og ellefu og svo koll af kolli. Hádegishlé er á milli klukkan tólf og eitt. Síðastar eru konur fæddar í nóvember og desember, á milli klukkan þrjú og fjögur. 

Kl. 09.00-10.00 - janúar og febrúar
Kl. 10.00-11.00   mars og apríl  
Kl. 11.00-12.00   maí og júní
Kl. 13.00-14.00   júlí og ágúst
Kl. 14.00-15.00   september og október
Kl. 15.00-16.00   nóvember og desember

Fyrir þær sem ekki komast á Suðurlandsbraut á morgun, bendir Óskar á netspjall Heilsuveru. Það er verið að bólusetja um 150 manns á hverjum degi, þó að það fari ekki hátt. Svo er stefnt að stærri hollum eftir tæpan mánuð. 

„Ef til kemur þá munum við taka nokkuð stóra daga þarna 17. til 20. ágúst. Þá í tengslum við þær tillögur sem koma frá sóttvarnarlækni um það hverjum eigi að byrja á. Það eru þær línur sem hafa verið lagðar núna, að það sé Janssen- fólkið, og þau sem hafa ekki fengið bólusetningu en vilja samt.”

Varðandi bólusetningu barna segir Óskar ekkert breytt í þeirri stöðu.

„Við erum ekki að bólusetja nema einstaka börn sem eru með undirliggjandi sjúkdóma. En svo eigum við von á því að sóttvarnarlæknir leggi einhverjar línur þegar það fer að hausta meira.”