Heimsminjanefndin heldur nú ársþing sitt í borginni Fuzhou í Kína, en samskipti fara þó að mestu fram gegnum fjarfundabúnað.
Yfir þrjú hundruð múmíur karla, kvenna og barna, sem taldar eru yfir sjöþúsund ára gamlar eru varðveittar í norðurhluta Síle. Þær eru því tvöþúsund árum eldri en múmíur Egyptalands.
Nefndin skilgreinir þær nú sem heimsminjar, líkt og sögufræga bæjarhluta gyðinga í þýsku borgunum Mainz, Worms og Speyer.
Franski strandbærinn Nice er nú kominn á heimsminjaskrána og eins 2.300 ára gamla Chanquillo-stjörnuathugunarstöðin sem stendur á fjallstindi um 400 kílómetra frá Lima, höfuðborg Perú.
Tlaxcala-dómkirkjan í Mexíkó bættist einnig á heimsminjaskrá UNESCO en þar sneru Evrópumenn frumbyggjum landsins til kristni forðum daga. Í síðustu viku bætti heimsminjanefnd UNESCO ellefu heilsulindum í sjö löndum á heimsminjaskrána.
Á heimsminjaskrá UNESCO er að finna menningar- og náttúruminjar af ýmsu tagi um allan heim. Fyrstu minjarnar vor samþykktar inn á skrána árið 1978 sem nú telur á tólfta hundrað minja en rúmlega fimmtíu eru í hættu að hverfa af henni.
Þeirra á meðal eru Stonehenge á Englandi, Everglades-þjóðgarðurinn í Bandaríkjunum, gamla borgin í Jerúsalem og veggir hennar og regnskógar í Madagaskar.
Gamla hafnarsvæðið í Liverpool á Englandi, ein helsta miðstöð verslunarveldis breska heimsveldisins á 18. og 19. öld, var fjarlægt af skránni í ár. Þingvellir, Surtsey og Vatnajökulsþjóðgarður eru á heimsminjaskrá UNESCO.