Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Miklir möguleikar taldir á nýtingu repju hérlendis

28.07.2021 - 21:56
Repja nýtist jafnt til manneldis, í skepnufóður og sem eldsneyti. Tilraunir á Hvanneyri til að auka uppskeru repju lofa góðu.

Tilraunameðferð lofar góðu

Frumniðurstöður tilraunameðferðar á repju til að auka uppskeru lofa góðu. Einfaldar lausnir kunna að auka öryggi repjuræktunar á Íslandi.  

Repja er ræktuð til olíuframleiðslu á nokkrum bæjum á Suðurlandi með góðum árangri. Einnig er repja nýtt til beitar fyrir kýr og sauðfé. 

Ef plantan er notuð til beitar þarf repjan að vera af ákveðinni arfgerð sem hentar vel sem grænfóður en ef hún er nýtt til olíuframleiðslu eru valin til þess sérstök afbrigði sem fara beint í að mynda stöngla og blóm. 

Gætum náð einu og hálfu tonni af olíu á hektara

Hrannar Smári Hilmarsson tilraunastjóri hjá Landbúnaðarháskóla Íslands að Hvanneyri telur unnt að ná verulegum árangri með ræktun repju hér á landi:

„Þetta er olíujurt og væri unnt að vinna olíu úr fræjum jurtarinnar. Við höfum séð tölur þar sem við erum að sjá þrjú tonn á hektarann af fræi. Það getur hæglega náðst helmingurinn af því í olíu. Það er eitt og hálft tonn á hektara. Hratið sem verður svo eftir er mjög mikilvægur próteingjafi fyrir skepnur.“ 

Hrannar segir bændur hafa verið að fikra sig áfram með repjuræktun í nokkur ár með misjöfnum árangri. Stundum hafi hann verið gríðargóður en einnig hafi orðið algjör uppskerubrestur. Tilraunir með bættar ræktunaraðferðir repju við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri eru nú hafnar á ný eftir nokkurt hlé. Niðurstöður í sumar lofa góðu.

Bæði til manneldis og skepnufóður

Hrannar Smári segir bæði unnt að nýta repju til manneldis og sem eldsneyti, annaðhvort sem hreint eldsneyti á eldri díselvélar en hugsanlega líka til íblöndunar á nýrri gerð díselvéla og í sjávarútvegi. Með því væri unnt að draga úr sótspori iðnaðarins.

 

Ólöf Rún Skúladóttir