Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íslendingum ráðið frá ferðalögum nema til Grænlands

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Íslendingum er ráðlagt frá að ferðast að nauðsynjalausu til skilgreindra hættusvæða í ljósi fjölgunar kórónuveirusmita í öllum löndum heims. Það á í raun við um öll lönd og svæði veraldar að Grænlandi undanskildu.

Þetta kemur fram breyttum tilmælum sóttvarnalæknis varðandi ferðalög erlendis á vef landlæknisembættisins. Sóttvarnalæknir telur ekki tímabært að breyta áhættusvæðum eins og er en reglulega er endurmetið hvort lönd falli undir áhættusvæði. 

Í tilkynningunni er áréttað að mikið sé um smit meðal bólusetts fólks sem geti smitað aðra. Eins að stór hluti íbúa annarra ríkja sé óbólusettur. Þurfi fólk að fara utan er það hvatt til varúðar, til að sinna handþvotti, nota andlitsgrímur, forðast mannþröng og samneyti við sér ótengt fólk.

Allir eru hvattir til sýnatöku verði einkenna vart og einkennalausir ferðamenn einnig, þótt bólusettir séu. Eins er áréttað að raskanir geti orðið á flugi og reglubreytingar í öðrum löndum, með litlum fyrirvara.