Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Halldóru ætlað að leiða stjórnarmyndunarviðræður

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Halldóra Mogensen þingkona hefur umboð félagsfundar Pírata til að leiða stjórnarmyndunarviðræður að loknum Alþingiskosningum. Halldóra segir málið nú fara í kosningakerfi grasrótarinnar.

Morgunblaðið greinir frá þessu í dag en oddvitar framboðslista flokksins lögðu erindisbréf þessa efnis fyrir félagsfund í gærkvöldi. Annað var ekki til umræðu á fundinum utan áhrifa kórónuveirufaraldursins á kosningabaráttuna.

Haft er eftir Halldóru að enginn hafi verið mótfallinn hugmyndinni sem verði borin undir þingflokk og framkvæmdastjórn að fengnu samþykki grasrótarinnar. 

Halldóra er þingflokksformaður Pírata og hefur setið á þingi frá því 2016 fyrir Reykjavíkur kjördæmi norður og var áður varaþingmaður frá 2014. Hún fer fyrir lista Pírata í kjördæminu fyrir þingkosningarnar í september næstkomandi.