Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gildir til 31. nóvember

Mynd með færslu
 Mynd: Samgöngustofa
Nýrri dagsetningu bregður fyrir í breytingum á reglugerð um ökuskírteini, sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur undirritað.

Þar segir að breytingarákvæðið gildi til 31. nóvember 2021. Eftir því sem fréttastofa kemst næst verða þó aðeins þrjátíu dagar í nóvember þetta árið. 

Reglugerðarbreytingin sem um ræðir snýr að sérstöku bráðabirgðaákvæði sem sett var inn í rgelugerð um ökuskírteini vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Sá sem hefur ökuskírteini frá ríki ESB og EES getur fengið útgefið íslenskt ökuskírteini án þess að þurfa að þreyta ökupróf, og hefði þetta að óbreyttu verið meðal þeirra réttinda sem Bretar misstu við útgönguna úr ESB.

Bráðabirgðaákvæði var hins vegar sett inn í reglugerð sem heimilar fólki með breskt ökuskírteini að fá íslenskt án próftöku til 31. júlí 2021. Nú hefur sú heimild verið framlengd, en það vildi ekki betur til en svo að dagsetningin varð 31. nóvember en hefði að öllum líkindum átt að vera þrítugasti.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV