Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Ekkert endilega búin að sjá toppinn á kúrfunni ennþá“

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
245 hafa greinst með covid innanlands á síðustu tveimur dögum. Yfirlögregluþjónn segir að toppi kúrfunnar sé líklega enn ekki náð. Einn óbólusettur er á gjörgæslu. Yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala býst við að fleiri verði lagðir inn næstu daga og segir sífellt stærri hluta starfsfólks spítalans upptekinn af að sinna faraldrinum.

122 greindust innanlands í gær, einum færri en í fyrradag, en þá höfðu aldrei fleiri greinst á einum degi. „Það er ekkert lát á þessu. Og ég held við séum ekkert endilega búin að sjá toppinn á kúrfunni enn þá,“ segir Víðir Reynisson.

Í gær fór metfjöldi í skimun, næstum 6500 manns, langflestir með einkenni. Og eins og í fyrradag tók langan tíma að greina sýnin. 115 höfðu greinst jákvæðir í hádeginu, sjö bættust við eftir hádegi, af sýnunum frá í gær. 

Aldrei meiri útbreiðsla á smitum

„Smitrakningin er orðin mjög erfið hjá okkur. Það er ekki víst að við náum því að tala við alla, heldur erum við að ná í tengilið sem var með honum eða annað slíkt, við erum að vonast til að það dugi,“ segir Víðir.

Þá fá sumir sms-smáskilaboð um að þeir séu komnir í sóttkví sem fólk er beðið að virða, þá er fólk áfram hvatt í sýnatöku finni það fyrir einkennum og að halda sig til hlés um helgina. „Kannski ekki ferðast innanhúss heldur í garðinum heima. Við erum að horfa á mestu útbreiðslu á smitum sem við höfum nokkurn tímann haft, fólk þarf að passa sig mjög vel.“

Tólf á spítala í júlí

Yfirlæknir smitsjúkdómadeildar segir að reynslan fyrir bólusetningu sýni að miðað við fjölda smitaðra núna hefðu um fjörutíu manns átt að hafa lagst inn á spítala í þessari bylgju - en þeir eru tólf frá 1. júlí. „Af þessum eru tveir sem eru algjörlega óbólusettir, einn hálfbólusettur. Þetta fólk er yfirleitt með einhverja undirliggjandi þætti, ofþyngd eða sykursýki. Það er finnst mér minna af alvarlegum veikindum. En meira í þeim sem eru óbólusettir,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir.

Búast við fleiri innlögnum næstu daga

Einn einstaklingur á sextugsaldri liggur á gjörgæslunni, óbólusettur. Fimm voru lagðir inn á spítalann í gær. „Það sem gerðist síðasta sólarhring endurspeglar það sem gerðist, eða fjölda tilvika fyrir sjö dögum síðan. Þá megum við búast við jafnmörgum innlögnum og kannski fleirum næstu daga, við þurfum auðvitað að undirbúa okkur fyrir það. Við grípum mannskap og þjónustu ekki upp úr rassvasanum. Við erum búin að taka smitsjúkdómadeildina undir þetta viðfangsefni. Sem eru þungar búsifjar fyrir okkur. Það krefur um aukna mönnun, það gerir braða- og legudeildir hægari. Þetta er allt saman dálítið önugt,“ segir Már.