Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Björn Ingi fær ekki að áfrýja til Hæstaréttar

Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - RÚV
Hæstiréttur hefur hafnað beiðni Björns Inga Hrafnssonar fjölmiðlamanns um áfrýjunarleyfi.

Björn Ingi var í héraðsdómi dæmdur til að greiða þrotabúi Pressunnar ehf. áttatíu milljónir króna en dómurinn rifti veðsetningu á eignum Pressunnar ehf. og yfirtöku skulda Frjálsrar fjölmiðlunar á 80 milljóna króna lánasamningi Pressunnar við Björn Inga Hrafnsson, þáverandi stjórnarformann og einn af eigendum Pressunnar.

Var Birni Inga því gert að greiða þrotabúi Pressunnar 80 milljónir króna.

Landsréttur staðfesti síðar þann dóm en Björn Ingi leitaði til Hæstaréttar og óskaði eftir leyfi til áfrýjunar.

Hæstiréttur hefur hins vegar hafnað beiðninni. Segir í ákvörðun réttarins að málið hafi hvorki „verulegt almennt gildi“ né sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur.