Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Assange sviptur ekvadorskum ríkisborgararétti

28.07.2021 - 14:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Julian Assange, stofnandi Wikileaks, hefur verið sviptur ekvadorskum ríkisborgararétt. 

 

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, hefur verið sviptur ekvadorskum ríkisborgararétt. 

Assange fékk hæli í sendiráði Ekvador í Lundúnum árið 2012 og dvaldi þar til ársins 2018 eða þar til Ekvadorar vísuðu honum á dyr. Honum var veittur ríkisborgararéttur skömmu fyrir brottför úr sendiráðinu í tilraun þáverandi forseta landsins til að veita honum stöðu diplómata og þar með friðhelgi.

Sú tilraun misheppnaðist og Julian Assange hefur varið síðustu árum bak við lás og slá, án þess þó að réttað hafi verið yfir honum fyrir þann glæp sem honum er gefið að sök, njósnir.

Dómstóll í Ekvador hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að veiting ríkisborgararéttar hafi ekki verið reglum samkvæmt. Ósamræmi hafi verið í umsóknarbréfi hans, mismunandi undirskriftir notaðar, hugsanlegt sé að gögn hafi verið fölsuð og að gjöld fyrir umsókn hafi ekki verið greidd. Hann hefur því misst ekvadorskan ríkisborgararétt, en er eftir sem áður ríkisborgari í Ástralíu.

Assange dúsir nú í öryggisfangelsi í Bretlandi. Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa óskað eftir að Bretar framselji hann  til landsins en þar á hann yfir höfði sér ákærur fyrir njósnir, eftir að hafa með gagnaleka komið upp um stríðsglæpi Bandaríkjahers í Íraksstríðinu.