
37 milljarða hagnaður á fyrri helmingi ársins
Íslandsbanki og Arion banki birtu í dag afkomutilkynningu vegna annars ársfjórðungs, en Landsbankinn hafði birt sína í síðustu viku.
Afkoma Íslandsbanka batnar til muna frá sama tímabili í fyrra. Bankinn hagnaðist um 5,4 milljarða á tímabilinu, sem nær frá mars fram í maí. Í fyrra nam hagnaðurinn 1,2 milljörðum og bætti upp fyrir neikvæðan fyrsta ársfjórðung, þegar faraldurinn lét fyrst á sér kræla.
Arðsemi eigin fjár nam 11,6%. Útlán til viðskiptavina jukust um 8,2% frá áramótum til loka maí, einkum vegna aukinna umsvifa á fasteignamarkaði en einnig aukinna lána til fyrirtækja.
Eigið fé bankans nam 190 ma. kr. í lok júní og heildareiginfjárhlutfall bankans var 22,9%.
Á fyrri helmingi ársins hagnaðist Íslandsbanki um níu milljarða, samanborið við 130 milljóna tap á sama tímabili í fyrra.
Ríkið er stærsti eigandi Íslandsbanka, með um 65% hlut en 35% hlutur ríkisins var seldur á útboði í síðasta mánuði.
Arion banki hagnaðist um 7,8 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við tæpa fimm milljarða í fyrra. Nam arðsemi eigin fjár 16,3% og var betri á öllum sviðum en árið áður.
Bankinn hefur á fyrstu sex mánuðum ársins hagnast um 13,8 milljarða króna og greitt hluthöfum 17,8 milljarða króna í formi arðs og endurkaupa á hlutabréfum. Þá mun bankinn hefja endurkaup á bréfum fyrir fjóra milljarða króna á morgun.