Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

17 þingmenn hið minnsta á útleið

28.07.2021 - 11:02
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Sautján þingmenn, þrettán karlar og fjórar konur, verða ekki í framboði í kosningunum í haust. Aðrir þingmenn, 25 karlar og 21 kona,  gefa kost á sér til endurkjörs.

Allir þeir flokkar sem sæti eiga á Alþingi, utan Flokks fólksins, hafa nú birt framboðslista sína í öllum kjördæmum fyrir þingkosningarnar í haust. En þótt Flokkur fólksins eigi eftir að birta lista, er komin nokkuð skýr mynd á oddvita og báðir þingmenn flokksins eru í framboði.

Svipuð endurnýjun hjá öllum nema F og C

Hjá Vinstri grænum, Samfylkingu, Pírötum, Sjálfstæðisflokki og Miðflokki eru þrír þingmenn á útleið. Hjá Framsóknarflokki er einn þingmaður á útleið, Silja Dögg Gunnarsdóttir en auk þess er Þórunn Egilsdóttir nýlátin.

Allir þingmenn Viðreisnar verða á lista í haust og það verða einnig báðir þingmenn Flokks fólksins.

Þótt mun fleiri karlar en konur séu á útleið, verða karlkyns þingmenn engu að síður fleiri en kvenkyns á listum flokkanna í haust. Ástæðan er sú að mun fleiri karlar en konur sitja á þingi.

Karlkyns þingmenn eru 38. Þrettán hverfa af listum en 25 er í framboði.
Þingkonur eru 25. Fjórar hverfa af listum en 21 er í framboði. Þá er vert að nefna að nokkrir þingmenn lutu í prófkjöri eða uppstillingu í lægra haldi fyrir nýliðum en tóku þó sæti á lista.

Þeir þingmenn sem eru ekki í framboði eru (í aldursröð):

Ari Trausti Guðmundsson (V)
Þorsteinn Sæmundsson (M)
Páll Magnússon (D)
Ólafur Ísleifsson (M)
Guðjón S Brjánsson (S)
Steingrímur J Sigfússon (V)
Kristján Þór Júlíusson (D)
Gunnar Bragi Sveinsson (M)
Sigríður Á Andersen (D)
Kolbeinn Óttarsson Proppé (V)
Silja Dögg Gunnarsdóttir (B)
Jón Þór Ólafsson (P)
Ágúst Ólafur Ágústsson (S)
Helgi Hrafn Gunnarsson (P)
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (S)
Smári McCarthy (P)

Þá er Þórunn Egilsdóttir, sem fyrr segir, látin.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV