Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vonar að lönd fari að horfa á annað en fjölda smita

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson
Ferðamálaráðherra vonast til að á næstum vikum muni nágrannaríkin breyta viðmiðum sínum samhliða bólusetningu, þannig að ríki hætti að horfa til fjölda smita þegar flokka á lönd í rauð, appelsínugul eða græn.

Ríkisstjórnin samþykkti fyrir helgi að herða sóttvarnaaðgerðir og var staða faraldursins rædd á fundi hennar í morgun. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, segir að markmið aðgerðanna hafi verið að tempra smit þangað til í ljós kemur hvort þeir sem veikst hafa undanfarið veikist alvarlega. Sem stendur séu nær allir þeir sem hafi greinst með covid-19 með lítil eða engin einkenni.

„Þær vísbendingar sem við höfum annars staðar frá er að bólusetningin sé algjör bylting í því hvernig staða Covid er og verður. Þannig að sú vinna sem hafin er um hvað það þýðir að vera orðin fullbólusett, hvernig við ætlum raunverulega að lifa með þessari veiru til framtíðar, hún skiptir miklu máli. Þannig að við vorum þarna með tillögu sóttvarnalæknis að kaupa okkur tíma,“ sagði Þórdís Kolbrún í viðtali við Hólmfríði Dagnýju Friðjónsdóttur að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Mögulegt er að Ísland verði rautt land samkvæmt skilgreiningu sóttvarnastofnunar Evrópu. Fari svo segir ráðherra það vissulega slæmar fréttir fyrir íslenska ferðaþjónustu enda hafi sú skilgreining áhrif á ferðahegðun fólks.

Hins vegar vonast hún til að á næstu vikum verði nýjum mælikvörðum beitt á hvað það þýði að vera rautt land á meðan heimsfaraldur geisar. „Þegar að lönd eru mörg hver langt komin í bólusetningu en önnur auðvitað alls ekki, að þá vona ég að mælikvarðar annars staðar breytist á hvað það þýðir að vera rautt land. Við erum að skima mjög mikið, einna mest allra landa. Við erum líklega eina landið sem er með smitrakningu eins og hér er og það hefur þau áhrif að við erum rauð. Vonandi verður það svo þannig að það þýðir eitthvað annað, ef við horfum á annað heldur en fjölda smita.“