Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telur ferðalanga geta átt rétt á fullri endurgreiðslu

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: Wikimedia Commons
Hárauð lönd, varnaðarorð stjórnvalda og kröfur um sóttkví geta vel réttlætt það að ferðaskrifstofur endurgreiði viðskiptavinum sem vilja hætta við utanlandsferðir að fullu. Þetta segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. Tómas J. Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða, er ekki sammála þessari túlkun, en segir að reynt sé að koma til móts við alla farþega. Nokkur fjöldi fólks sem vill slaufa fyrirhuguðum ferðum hefur í vikunni leitað liðsinnis Neytendasamtakanna. 

„Við erum aðallega að skoða hvort fólki er heimilt að afpanta ferð án þess að ferðaskrifstofa innheimti þóknun, það er að fólk fái hundrað prósent endurgreitt. Fólk leitar til okkar til að fá upplýsingar um stöðu og réttindi sín, “ segir Breki. Þarna á meðal séu nokkrir útskriftarnemar úr MR og MH sem eiga bókaða ferð með Heimsferðum til Krítar en hafa ekki lengur hug á að fara. Örfáir dagar eru síðan útbreitt smit kom í ljós í hópi útskriftarnema við Flensborg, sem sneru heim frá Krít í síðustu viku. Breki segir samtökin eiga í viðræðum við einhverjar ferðaskrifstofur.  

Í leiðbeiningum sem Neytendasamtökin hafa tekið saman og byggja á lögum um pakkaferðir kemur fram að alla jafna geti ferðamaður afpantað pakkaferð, áður en hún hefst, þá gegn greiðslu sanngjarnrar þóknunar sem vegur uppá móti tekjumissi skipuleggjandans. Upphæðin ræðst oft af því með hve miklum fyrirvara ferðin er afbókuð. Endurgreiðslan frá ferðaskrifstofunni á svo að berast innan hálfs mánaðar.

Óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður

Stundum eiga ferðamenn rétt á að fá pakkaferðina endurgreidda að fullu, það á við þegar óvenjulegar eða óviðráðanlegar aðstæður hafa áhrif á framkvæmd ferðarinnar eða flutning farþega til áfangastaðar. Það er ekki alveg klippt og skorið hvað telst til óviðráðanlegra aðstæðna. 
Fréttastofa ræddi við forsvarsmann ferðaskrifstofu sem ekki vildi tjá sig að sinni, málið væri ekki alveg einfalt og stofan nú að fara yfir réttindi sín og skyldur með Neytendastofu. Breki segir þetta metið í hverju tilviki fyrir sig, „Til dæmis undir hvaða kringumstæðum fólk kaupir slíka ferð og með hvaða væntingar, og síðan breytingar sem verða, bæði á áfangastað og líka hér heima, þegar heim er komið.“ 

Varnaðarorð stjórnvalda gegn ferðalögum, breytingar á litakóðun landa á korti evrópsku sóttvarnastofnunarinnar, kröfur um sóttkví og nýjar upplýsingar um hversu illa bólusetning ver gegn Delta-afbrigðinu eru allt atriði sem skipta máli að hans mati. 

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Breki Karlsson

Telur ekki raunhæft að endurgreiða að fullu

Tómas J. Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða, túlkar ákvæðið um óviðráðanlegar eða óvenjulegar aðstæður sem hafa áhrif á framkvæmd ferðar eða flutnings með öðrum hætti en Breki. Það sé einungis þegar neyðarástand skapist sem reyni á þetta ákvæði, svokallað force majeure. Í slíkum tilvikum aflýsi ferðaskrifstofan einfaldlega ferðinni, og versni ástandið á áfangastöðum hennar til muna nú verði það gert. Enn sem komið er ríki þó ekki neyðarástand, hvorki á Krít né Tenerife, flugfélög haldi áfram að fljúga þangað og litlar hömlur gildi í samfélaginu. Hann bendir á að fólk sem pantar ferðir í dag geri sér grein fyrir því að nú sé heimsfaraldur og aðstæður geti breyst. 

Funda með nemendum

Það er tæp vika í að útskriftarnemar við Menntaskólann í Reykjavík og Menntaskólann við Hamrahlíð skelli sér í sólina á Krít með Heimsferðum. Ferðaskrifstofan fundaði með MR-ingum í gær og svaraði ýmsum spurningum nemenda, svo sem um hvað biði þeirra sem gætu lent í því að greinast smitaðir úti.  Tómas segir að einhverjir innan hópsins vilji hætta við ferðina. Þeim hafi verið boðin 35% endurgreiðsla þó að alla jafna fáist ferðir sem afbókaðar eru innan viku fyrir brottför ekki endurgreiddar. Til að fá endurgreitt að fullu hefði þurft að afbóka ferðina með tveggja mánaða fyrirvara. 

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Menntaskólinn í Reykjavík

Máttu afpanta með dagsfyrirvara en ekki þriggja mánaða

Nokkur mál komu í fyrra til kasta Kærunefndar vöru- og þjónustukaupa, þannig var það mat nefndarinnar að fjölskylda sem afbókaði ferð til Ítalíu með dagsfyrirvara, í febrúar í fyrra, ætti rétt á fullri endurgreiðslu, vegna faraldursins. Aftur á móti áttu ferðamenn sem bókuðu ferð sem fara átti í júní með þriggja mánaða fyrirvara ekki rétt á endurgreiðslu á þeim grundvelli, að mati nefndarinnar. Í úrskurðinum sagði: „Þegar langt er í upphafsdag ferðar getur verið erfiðleikum háð að slá því föstu hverjar aðstæður muni raunverulega verða á áætluðum upphafsdegi ferðarinnar enda geta aðstæður breyst án fyrirvara. Ekki er unnt að fallast á það að fyrir hafi legið með óyggjandi hætti, þann 26. mars 2020, að þær óvenjulegu og óviðráðanlegu aðstæður sem höfðu skapast vegna útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins, hefðu haft áhrif á framkvæmd pakkaferðarinnar eða flutning farþega til ákvörðunarstaðar tæplega þremur mánuðum síðar.“

Lakari réttur flugfarþega

Réttur fólks sem keypt hefur pakkaferðir er töluvert ríkari en þess sem einungis hefur keypt flugfargjald. Flugfarþegar eiga einungis rétt á endurgreiðslu ef flugfélagið aflýsir ferðinni. Hætti farþegi við flugið á eigin forsendum, til dæmis vegna sóttkvíarkröfu eða útbreidds smits á áfangastað ber hann tjónið sjálfur eða þarf að leita í eigin tryggingar, Breki hjá Neytendasamtökunum segir tryggingar þó oft undanskilja þetta. Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að viðskiptavinum sem vilji hætta við flugferð bjóðist að breyta ferðum sínum án breytingagjalds eða fá inneign sem gildi í þrjú ár. Nokkuð sé um að fólk nýti sér þetta enda hafi aðstæður víða breyst hratt upp á síðkastið.