Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kallar Bandaríkjaher heim frá Írak -- en þó ekki

27.07.2021 - 01:27
epa09368339 US President Joe Biden (R), meets Mustafa Al-Kadhimi, Iraq's prime minister, in the Oval Office of the White House in Washington, DC, USA, on 26 July 2021. Biden and Al-Kadhimi plan to announce that the American combat mission in Iraq will be over by the end of the year though the US is expected to continue having a military presence on the ground.  EPA-EFE/Tom Brenner / POOL
Mustafa al-Kadhimi, forsætisráðherra Íraks, og Joe Biden, Bandaríkjaforseti, í forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu Mynd: EPA-EFE - The New York Times POOL
Hlutverk Bandaríkjahers í Írak mun breytast nokkuð frá áramótum, samkvæmt samkomulagi ríkjanna sem kynnt var á fréttamannafundi eftir viðræður Joes Bidens, Bandaríkjaforseta, og Mustafas al-Kadhimis í Hvíta húsinu í gær. Fjöldi bandarískra hermanna í landinu mun þó að líkindum ekki breytast til muna.

Bandaríkin hafa verið með virkan herafla í Írak frá árinu 2003. Í dag eru þar um 2.500 bandarískir hermenn, sem einkum er ætlað að aðstoða heimamenn í baráttunni við Íslamska ríkið. Fullum sigri á þeim samtökum í Írak hefur ítrekað verið lýst yfir en árásir Bandaríkjamanna á bækistöðvar annarra vopnaðra sveita, sem njóta stuðnings Írana, hafa haldið áfram.

Óánægja með áframhaldandi veru þeirra í Írak jókst til muna eftir að þeir felldu leiðtoga  einnar slíkrar ásamt einum æðsta hershöfðingja Írans, Qasem Soleimani, í drónaárás í Bagdad í fyrra. Í framhaldinu hefur þrýstingur aukist stöðugt á íröksku stjórnina að senda bandaríska herinn til síns heima.

Skilgreiningum breytt frekar en liðsstyrk

Í samkomulaginu sem kynnt var í gærkvöld er kveðið á um að virkar bardagasveitir Bandaríska hersins verði kallaðar heim frá Írak fyrir árslok, en Bandaríkjaher verði áfram með mannskap þar til ráðgjafar og þjálfunar. Ekki er kveðið á um liðsstyrkinn, en Jean Psaki, talskona Hvíta hússins, sagði á fréttamannafundi í gærkvöld að hann yrði breytilegur eftir þörfum á hverjum tíma.

Í frétt BBC segir að fjöldi bandarískra hermanna muni að líkindum haldast svipaður áfram þrátt fyrir þessar breytingar. Samkomulagið sé fyrst og fremst gert til að hjálpa al-Kadhimi, sem nú geti haldið því fram að Bandaríkjaher sé ekki lengur virkur þátttakandi í vörnum landsins og hernaðaraðgerðum þar.