Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Býst við svipuðum tölum smita á morgun

27.07.2021 - 19:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Metfjöldi kórónuveirusmita á einum degi frá upphafi faraldursins greindist innanlands í gær og tók fram á miðjan dag í dag að greina sýnin vegna bilunar í tölvukerfi. Yf­ir­lækn­ir á sýkla- og veiru­fræðideild Land­spít­al­ans segist búast við að svipaðar tölur yfir smit verði kynntar á morgun.

„Covid-göngudeildin er að vinna nálægt fullri afkastagetu við greiningu á Covid-sýnum. Afkastagetan er 4-5000 sýni á dag og við erum að nálgast það, segir Karl Gústaf. Hann segir að undir slíkum kringumstæðum megi ekkert koma upp á og seinni partinn í gær hafi orðið bilun í tölvubúnaði. 

„Því þurfti að endurtaka keyrslur þegar viðgerð hafði farið fram í gærkvöldi. Það þurfti að keyra 600 sýni í dag sem voru frá gærdeginum.”

Aðspurður hvort greiningartölur dagsins í dag hafi í för með sér svipaðar tölur og metfjöldinn frá því í gær segist hann allt eins eiga von á því. „Þó er erfitt að meta á þessu stigi hvort þetta verður meira eða minna.“

Karl Gústaf segir að starfsfólk sé orðið langþreytt vegna manneklu og álags. Hann segir að ef enn frekar fjölgar í sýnum sem þarf að greina sé næst skref að kalla inn fólk úr sumafríi til að anna starfseminni. Hann vonar þó að til þess þurfi ekki að koma.