Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þjóðhátíðarnefnd liggur enn undir feldi

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RUV
Þjóðhátíðarnefnd fundar enn um afdrif Þjóðhátíðar 2021 að sögn Harðar Orra Grettissonar formanns nefndarinnar. Hann segir nefndina hafa fundað stíft yfir helgina og muni hittast aftur í dag.

Föstudaginn 23. júlí síðastliðinn tilkynnti ríkisstjórnin nýjar sóttvarnaaðgerðir sem tóku gildi í gær. Á meðal þeirra aðgerða sem ráðist hefur verið í til þess að reyna að sporna við útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar eru 200 manna fjöldatakmarkanir.

Fyrirkomulag seinkaðrar hátíðar til skoðunar

Með þeirri ákvörðun voru vonir Þjóðhátíðarnefnda, Eyjamanna og þeirra sem áttu miða á hátíðina slegnar út af borðinu enda erfitt að halda yfir 10.000 manna hátíð undir þessum kringumstæðum. Í fyrra var Þjóðhátíð frestað um eitt ár og áttu miðahafar þess kost að færa miða sína yfir á hátíðina sem fyrirhuguð var í ár.

Eftir að aðgerðir voru tilkynntar sagði Hörður Orri að til greina kæmi að einfaldlega að fresta Þjóðhátíð um nokkrar vikur og halda hátíðina síðar á árinu. Í samtali við fréttastofu í morgun segir hann að engin ákvörðun hafi verið tekin en vonast til þess að hægt verði að greina frá fyrirætlunum sem fyrst.

Hörður sagði þá einnig að meðal annars væri fyrirkomulag hátíðarinnar til skoðunar komi til þess að hún verði haldin síðar á árinu. Þjóðhátíð er jafnan sett á föstudegi og lýkur aðfaranótt mánudags, frídags verslunarmanna. Þá er einnig haldið svokallað Húkkaraball á fimmtudeginum fyrir hátíðina.

Enginn almennur frídagur er eftir á árinu að jólahátíðinni undanskilinni sem gæti sett strik í reikninginn sé ætlunin að halda hefðbundna Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum seinna á árinu.

 

Andri Magnús Eysteinsson