Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Smit koma seinna fram á landsbyggðinni

26.07.2021 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Enginn er á sjúkrahúsi á landsbyggðinni vegna Covid 19. Forstjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri segir að yfirleitt séu bylgjurnar seinni af stað utan höfuðborgarsvæðisins.

 

Sjúkrahúsið í viðbragðsstöðu

Á Norðurlandi eystra eru nú 12 í einangrun og 21 í sóttkví. Mikið álag hefur þó verið á bráðadeild sjúkrahússins á Akureyri í sumar vegna þess fjölda ferðamanna sem verið hefur í landshlutanum. Sigurður E. Sigurðsson forstjóri lækninga segist feginn að ekki hafi bæst þar við covid-sjúklingar. Sjúkrahúsið sé þó í viðbragðsstöðu við að álag aukist vegna faraldursins. Hann segir að þessi vika muni leiða betur í ljós í hve miklum mæli faraldurinn sé kominn norður. Viðbragðsáætlanir séu tilbúnar en hafi ekki verið virkjaðar enn þá.

Raðir í einkennasýnatöku

Heilbrigðisstofnun Norðurlands sér um sýnatöku á Akureyri og hafa sífellt fleiri sýni verið tekin. Í dag er metþátttaka í einkennasýnatöku og hafa nú þegar verið tekin 220 sýni. Mynduðust langar raðir fyrir utan sýnatökustað og þurfti að kalla út auka mannskap. 

Flestir fara til síns heima

Á Austfjörðum jókst sýnataka í kjölfar Lunga um þarsíðustu helgi þegar smit kom þar upp. Alla síðustu viku hefur einkennasýnataka verið umfangsmeiri. Fjöldi ferðamanna hefur verið á Austfjörðum síðustu vikur og álagið á heilbrigðiskerfið fyrir austan eftir því. Ferðamenn sem greinast með Covid fara þó yfirleitt til síns heima en nú eru skráð 3 covid tilfelli á Austurlandi og 10 eru þar í sóttkví.