Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óvissa um endurvinnslu á rafbílarafhlöðum hérlendis

26.07.2021 - 14:48
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Kostnaðurinn við förgun á rafhlöðu úr rafbíl hleypur í dag á hundruðum þúsunda. Ekkert úrvinnslugjald er enn lagt á rafhlöðurnar og óljóst hver skuli ábyrgjast förgunina til framtíðar. Framkvæmdastjóri Brimborgar er vongóður um að málið leysist farsællega en þar á bæ er stefnt að því að geyma úr sér gengnar rafhlöður í gámi þar til málin skýrast.

Endurvinnsla skammt á veg komin

Rafbílar hafa síðastliðin tíu ár orðið æ fyrirferðarmeiri á götunum hérlendis, nú eru á landinu um 20 þúsund bílar sem innihalda liþíumjónarafhlöður. Þrátt fyrir að þær innihaldi sjaldgæfa og verðmæta málma er enn dýrt að farga þeim, enda endurvinnsla frumstæð, enn sem komið er. Sérfræðingar lýsa áhyggjum af þessu í nýlegri grein á vef breska ríkisútvarpsins, innan tíu ára sé stefnt að því að 30 milljónir rafbíla verði á götum ríkja Evrópusambandsins og það bráðvanti skilvirkan endurvinnslufarveg fyrir rafhlöðurnar, það megi ekki bara urða þá, með tilheyrandi mengun, þá skipti endurvinnsla máli í ljósi þess að góðmálmarnir sem rafhlöðurnar innihalda eru sjaldgæfir og vinnslufrekir

Ekkert úrvinnslugjald

Sorpa fúlsar við rafbílarafhlöðum, þar er ekki farvegur fyrir þær. Drifrafhlöður bera enn ekkert úrvinnslugjald hér á landi en ráðgert er að leggja slíkt gjald á þær frá 1. janúar 2023. Það verður breytilegt og tekur mið af kostnaði við endurvinnslu hverju sinni. Úrvinnslusjóður vinnur að undirbúningi þessa í samvinnu við stjórnvöld, Ríkisskattstjóra og Bílgreinasambandið. Sömuleiðis á eftir að leggja úrvinnslugjald á minni liþíum-rafhlöður sem t.d. má finna í rafmagnshjólum og rafskútum. 

Geyma rafhlöðurnar í gámi þar til málin skýrast

Það er framleiðendaábyrgð á rafhlöðunum en enn á eftir að taka ákvörðun um lokaútfærslu. Bílaumboðin bíða eftir reglugerð frá stjórnvöldum. „Evróputilskipun liggur fyrir en íslensk stjórnvöld eiga eftir að klára sína innleiðingu, það getur haft óvissuáhrif á í hvaða farvegi drifrafhlöður í bílum enda þó ég sé frekar bjartsýnn sjálfur á að þetta muni allt leysast og bara vel,“ segir Egill Jóhannsson, framkvæmdastjóri Brimborgar. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Egill Jóhannsson.

Jón H. Steingrímsson, framkvæmdastjóri Terra Efnaeyðingar, segir mikilvægt að skýra hver beri ábyrgð. „Að öllum sé ljóst sem að málunum koma hver ber ábyrgð á förgun, hvar kostnaðurinn lendir. Þegar kemur að því að skila rafhlöðunum til förgunar vita þá allir að hverju þeir ganga. Það á þá við þegar bílaumboð kaupir bifreið erlendis frá, að það sé ljóst þeirra á milli hver ber kostnað af förgun. Sama þegar einstaklingur hér kaupir rafbíl af bílaumboði hér, að það sé alveg skýrt hver ber kostnaðinn af förguninni.“ Hann segir að væntanlega verði lögum breytt og úrvinnslugjald sett á. 

Í dag greiða umboðin fyrir förgunina en kostnaðurinn getur líka lent á eiganda bílsins, hafi hann flutt hann inn sjálfur. Egill skilur Evróputilskipunina þannig að hún geri ráð fyrir að frumframleiðandi bílsins beri ábyrgðina. Hann býst ekki við neinni holskeflu af rafhlöðum til förgunar á næstunni. „Við erum með þá hugmynd að ef það kæmi til þess myndum við safna þessu saman hjá okkur, í sérstakan gám, og geyma þar til þetta kemst algerlega á hreint.“

Enn sem komið er eru rafhlöður úr tvinn- og rafbílum afar lítið farnar að skila sér til Brimborgar en nokkuð er um að gert sé við þær, til dæmis skipt um sellur. 

Telur að rafhlöðurnar endist lengur en gert hafi verið ráð fyrir

Egill telur rafhlöðurnar eigi eftir að endast lengur en sem nemur átta ára ábyrgðartíma, í 12-15 ár. Að þeim tíma loknum megi svo endurnýta þær, til dæmis sem aflgjafa fyrir sumarbústaði. Það sé nefnilega enn hægt að nýta rafhlöðurnar og hlaða þær upp í 70-80% af hleðslurýmd þó þær séu hættar að gagnast rafbílunum. Það eru dæmi um að gamlar rafbílarafhlöður hafi verið nýttar til að liðka fyrir orkuskiptum, t.d. á Egilsstöðum og í Grímsey, þær geyma þá rafmagn sem vindmyllur eða sólarsellur framleiða. Egill segir að það sé enn tími til að koma þessum málum í farveg. „Við höfum alveg nokkurra ára svigrúm í að leysa þetta endanlega og ég trúi því að það verði kominn ágætis farvegur eftir 6,7,8 ár, þegar þetta fer að byrja.“

Sumarbústaðir, sumarbústaður, útivistarsvæði
Mynd úr safni. Mynd: Jónsson - Jóhannes
Kemur gamla rafhlaðan að gagni í bústaðnum?

Starfshópur spáir því að styttra sé í að rafhlöðurnar skili sér

Starfshópur um útfærslu á framkvæmd framleiðendaábyrgðar á rafhlöðum og rafgeymum gaf út skýrslu í fyrrasumar. Þar kemur fram að stærstur hluti ökutækja með drifrafhlöðum sé fluttur inn af bílaumboðum, eða um 75% en um fjórðungur var fluttur inn af öðrum fyrirtækjum eða einstaklingum. Hluti þeirra ökutækja var fluttur inn frá markaðssvæðum þar sem tilskipun Evrópusambandsins hefur ekki tekið gildi, s.s. frá Bandaríkjunum. 

Starfshópurinn spáir því að eftir tvö til þrjú ár fari rafhlöðurnar að skila sér í auknum mæli til endurvinnslu, en gert er ráð fyrir að meðallíftími drifrafhlöðu sé um 10 ár. Þá muni reyna á það hvernig staðið sé að söfnun og meðhöndlun rafhlaðanna hér á landi. 

Framleiðendum og innflytjendum skylt að taka við 

Í vor var lögum um meðhöndlun úrgangs breytt og kveðið á um að framleiðendur og innflytjendur iðnaðarrafhlaðna skuli taka við notuðum rafhlöðum óháð efnasamsetningu þeirra og uppruna. Í skýrslu starfshópsins er fjallað um hugsanlegar útfærslur á nýju kerfi í kringum þessar rafhlöður og lögð rík áhersla á að bíleigendur geti skilað þeim til endurvinnslu án endurgjalds, óháð því hvort þeir fluttu bílinn inn sjálfir eða keyptu hann hjá umboði. Kerfið þurfi að standa undir öllum kostnaði, s.s. við að fjarlægja rafhlöðu úr ökutæki, safna þeim saman, meðhöndla þær, flytja og endurvinna. Starfshópurinn lagði til að Úrvinnslusjóði yrði falið að framkvæma framleiðendaábyrgðina á skráningarskyldum ökutækjum með því að leggja á úrvinnslugjald. Framleiðendum á þó líka að gefast kostur á að sjá um framvæmdina hafi þeir hug á því. Meginreglan verði að innheimta gjaldið af rafhlöðunni af framleiðanda eða innflytjanda við innflutning en vilji framleiðendur sjálfir sjá um þetta fáist gjaldið niðurfellt. Enn á eftir að skera úr um hver skuli greiða fyrir það að láta fjarlægja ónýtar rafhlöður úr bílum, það mun kosta um 1 - 2,5 milljarða samtals á næstu tíu árum, að mati starfshópsins. Þarna koma til álita tvær Evróputilskipanir sem báðar leggja ábyrgðina á herðar framleiðenda.

Mynd með færslu
 Mynd:
Teslur verða sífellt algengari sjón á Íslandi.

Fluttar til Frakklands með varúð

Enn er sáralítið um að rafbílarafhlöður skili sér á móttökustöðvar spilliefna enda einungis áratugur síðan rafbílar fóru að ryðja sér til rúms hér. Jón H. Steingrímsson, framkvæmdastjóri hjá Efnaeyðingu Terra, segir að úr sér gengnar rafbílarafhlöður hljóti að verða meira áberandi á næstu árum. Terra Efnaeyðing hefur tekið á móti rafbílarafhlöðum gegn gjaldi, um 100 til 200 þúsund krónum fyrir meðalrafhlöðu. Þær eru fluttar úr landi og við fráganginn þarf að gæta sérstakrar varúðar sökum eldhættu. Allar rafbílarafhlöðurnar frá Efnamóttökunni eru sendar á endurvinnslustöðina SNAM, sunnarlega í Frakklandi. Þar eru rafhlöðurnar bræddar og málmarnir endurheimtir og enn kostar það meira en málmarnir verðmætu gefa í aðra hönd. 

Endurvinnslan hljóti að taka við sér

Jón segir að endurvinnsla á þessum rafhlöðum sé enn að slíta barnsskónum og því rukki stöðvarnar erlendis stórar fjárhæðir fyrir. „Magnið sem kemur til endurvinnslu eykst smám saman, þá fara menn að setja kraft í að finna tæknilausnir til að endurvinna liþíum-málminn.“

Stöðin í Frakklandi rukkar um 700 krónur á hvert kíló af rafhlöðum, en í mörgum rafbílum vega rafhlöðurnar 100-300 kíló. „Maður trúir eiginlega ekki öðru en að það finnist framtíðarlausn þar sem verðið fyrir liþíum-málm greiðir rúmlega kostnaðinn við að endurvinna það, liþíum er mjög sjaldgæfur málmur,“ segir Jón.  

Egill hjá Brimborg telur ekki ólíklegt að rafhlöðurnar verði innan skamms álitnar mjög verðmætar og þá vilji bílaframleiðendurnir sjálfir kannski annast endurvinnsluna. „Þá gæti Volvo óskað eftir því að við sendum þeirra batterí til þeirra og Nissan til sín og þeir geti unnið úr þeim frekari verðmæti fyrir næstu kynslóð rafbíla.“

Nokkrir bílaframleiðendur eru raunar með áform um að hefja endurvinnslu bráðlega, eða hafa þegar gert það. Sumir eru jafnvel farnir að endurnýta rafhlöðurnar í verksmiðjum sínum. Á meðal þessara framleiðenda eru Renault, Nissan og Tesla. 

Mynd með færslu
 Mynd: CC
Liþíum-náma í Bandaríkjunum.

Hættan að fólk skili ekki rafhlöðum til að forðast kostnað

En býður það ekki hættunni heim að hafa ekki skýran farveg núna? Þetta eru hættuleg spilliefni og slæmt ef þau lenda á villigötum, verða til dæmis flutt til fátækra landa sem skortir innviði til endurvinnslu. Egill segir íhluti í bíla vel rekjanlega og þetta því ekki áhyggjuefni komist málin í skýran farveg innan nokkurra ára. „Ég myndi halda að mesta hættan væri sú, ef bíll tjónast til dæmis í dag og það kostar rosa mikið að fara með batteríið eða bílinn í endurvinnslu, að menn myndu kannski parkera honum á bak við einhvern sveitabæ úti á landi.“ 

Uppfært 18:52 með nánari upplýsingum um endurvinnslu á vegum framleiðenda. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV