Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Nektin og sígarettan ollu usla og hneykslan

Mynd: Samsett mynd / RÚV/Jón Kaldal

Nektin og sígarettan ollu usla og hneykslan

26.07.2021 - 14:28

Höfundar

Rúðan á stúdíói Jóns Kaldals var þrisvar brotin á meðan gluggann prýddi fræg mynd af Ástu Sigurðardóttur skáldkonu. Það þótti ögrandi að hún skyldi koma fram fáklædd og reykjandi. Ásta vakti reyndar athygli hvar sem hún kom og flest samtímafólk hennar man eftir þeim svip sem hún setti á borgarlífið, samkvæmt Ólafi Agli Egilssyni leikstjóra.

Í haust verður sett upp ný leiksýning í Þjóðleikhúsinu um skáldkonuna rómuðu, Ástu Sigurðardóttur, í leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar. Sem upphitun fyrir sýninguna ætlar Ólafur að leiða áhugasama í göngu um slóðir skáldsins, sem er hluti af viðburðaröð Borgarbókasafnsins, Borgarsögusafnsins og Listasafns Reykjavíkur. Ólafur kíkti í Sumarmál á Rás 1 og sagði frá Ástu, sýningunni og göngunni.

Líf flottrar listakonu reyndist þrautaganga

Ólafur las sögur Ástu í menntaskóla en þá voru allar listaspírur á bólakafi í verkum meðal annars Ástu og Dags Sigurðarsonar. „Þetta var heillandi,“ segir Ólafur. „Fyrir ungling var þetta mikið drama, mikill sársauki. Lífið í öllum sínum margbreytileika og skuggarnir líka.“ Frá þeirra fyrstu kynnum hefur Ásta aldrei horfið langt úr huga Ólafs. „Hún er rosalega afgerandi og flott listakona, en þetta er líka mikil þrautaganga. Hennar líf var röndótt.“

Samtímafólk Ástu rifjar upp minningar sínar um hana

Ásta var sannarlega áberandi persóna í Reykjavíkurlífinu og vakti athygli hvar sem hún kom. „Hún var eftirminnileg í útliti og framgöngu og bráðvel gefin og vel lesin. Hún var vel að sér í þjóðlegum fróðleik,“ segir Ólafur. Ásta fæddist árið 1930 og lifði rétt fram yfir fertugt. Þó ævin hafi verið stutt man flest núlifandi samtímafólk hennar eftir henni á einhvern hátt. „Verkið er að hluta minningabrot fólks sem ég hef komist í samband við,“ segir Ólafur sem hefur meðal annars rætt við nágranna Ástu og Þorsteins frá Hamri í Kópavogi, fólk sem mætti henni á förnum vegi og fastagesti skemmtistaðnum Laugavegi 11 sem var goðsagnakenndur staður. „Það var staðurinn,“ segir hann. „Þar voru bóhemarnir og þar var listafólkið og þeir sem voru á jaðrinum.“

„Það vissu allir í rútunni hver hún var“

Fólk man eftir Ástu, segir Ólafur, jafnvel þótt það hafi bara séð hana einu sinni. Hún var kölluð Ásta módel því hún sat fyrir nakin hjá myndlistarnemum. Það þótti mörgum vera ósiðlegt og mikill skandall. Ólafur ákvað að freista þess að finna eina þessara teikninga og komst í samband við mann sem nú er búsettur á Flórída. Hann átti teikninguna því miður ekki en gat deilt með honum sögu af kynnum sínum og Ástu. Hann var staddur í rútu að keyra framhjá Selfossi um fjórtán ára aldur þegar Ásta kemur inn í rútuna. „Ég gleymi þessu aldrei,“ sagði maðurinn. „Hún var í rósóttum sumarkjól og gúmmístígvélum. Það vissu allir í rútunni hver hún var, en hún lét samt sem hún vissi ekki af neinum. Hún settist við gluggann og horfði út.“ Maðurinn sá hana aldrei eftir þetta en man það enn ljóslifandi.

Hneyksluð manneskja braut rúðuna

Jón Kaldal tók ódauðlegar myndir af skáldkonunni sem margir þekkja vel, þar sem hún er ber að ofan, þokkafull á svip með sígarettu ýmist í hönd eða munni. Myndirnar þóttu mörgum ósæmilegar og Ásta segir sjálf frá því að ljósmyndarinn hafi stillt mynd af henni upp í glugga og rúðan hafi þrisvar verið brotin, líklega af manneskju sem var misboðið. Á myndinni sést í geirvörtu Ástu, en jafnvel þó að hún sæist ekki segir Ólafur að myndin sé ögrandi. „Hún er með skartgripi og hún er að reykja sígarettu. Þetta hefur valdið usla, og gerði það,“ segir hann.

Í listamannafans hvar sem hún kom

Ásta var alltaf umkringd skrautlegum karakterum úr listalífinu. Hún bjó til dæmis í kommúnu í Skerjafirði í húsi sem hét Hólar, en sambýlingarnir endurskírðu: Alkóhólar og þar ríkti mikið bóhem-fjör samkvæmt Ólafi. Þar bjuggu ásamt Ástu Stefán Hörður Grímsson skáld, Geir Kristjánsson þýðandi og Jónas E Svafár atómskáld og myndlistamaður. Á Ellefunni sátu gjarnan með henni til dæmis Þorsteinn frá Hamri, Jón Óskar, Thor Vilhjálmsson, Jóhann Hjálmarsson og Elías Mar. Í Kópavogi bjó Ásta síðar með barnsföður sínum Þorsteini frá Hamri og börnum þeirra þar sem gekk á ýmsu þar til þau slitu samvistum.

Meðvitaður um ábyrgðina

Ólafur segir að það sé ábyrgðarhluti að skrifa sögu annarra og það sé mikilvægt að vera meðvitaður um ábyrgðina. Hann hafði það einnig að leiðarljósi þegar hann skrifaði verkin um Ellý Vilhjálms og Bubba Morthens. „Maður þarf að muna að þetta er líf fólks og sögur og það þarf að fara blíðum höndum um hana,“ segir hann. „Ef maður er minnugur um það held ég að maður sé ekki að fara að gera neina feila eða gera neinum neitt upp.“

Tekur ekki langan tíma að drekka sig í hel

Ólafur hyggst sjálfur ekki setjast í dómarasæti um Ástu eða hennar líf. „Ég ætla ekki að skera úr um hvað er sniðugt eða gott og: Var hún hér að standa sig vel eða illa?“ segir hann. „Ég reyni að safna því saman og setja saman sem vitað er. Fólk getur svo getið í eyðurnar eða fellt sinn eigin dóm.“

Saga Ástu er ekki löng en hún einkennis af miklu fjöri. Hún býr í kommúnunni skrautlegu, flytur í Kópavoginn og þar fer að halla undan fæti. „Það er ekki langt tímabil sem það tekur hana að drekka sig í hel, svo það sé sagt,“ segir Ólafur.

Hringdu í Ólaf ef þú veist meira

Til stendur að setja sýninguna upp í haust en Ólafur segist enn vera opinn fyrir því að bæta við sögum í hana. Hann biðlar til þeirra sem þetta lesa, og eiga sér minningu eða þekkja sögu af skáldkonunni, að finna sig í símaskránni og hafa samband.

Gangan fer fram 12. ágúst  og allar upplýsingar um hana er að finna hér.

Rætt var við Ólaf Egil í Sumarmálum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Fjallar um áður óbirt sendibréf Ástu Sigurðardóttur