Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Langflestir á göngudeild COVID með væg einkenni 

26.07.2021 - 18:36
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Yfir 600 manns eru nú í einangrun með COVID-19 og því hefur róðurinn tekið að þyngjast hjá göngudeild COVID sem hefur eftirlit með smituðum. Runólfur Pálsson, einn af yfirmönnum deildarinnar, segir stöðuna þó vera allt aðra en í fyrri bylgjum faraldursins þar sem að langflestir hinna smituðu séu með væg einkenni þökk sé bólusetningum.

Langflestir með einhver einkenni þó væg séu

Langflestir, fyrir utan örfáa, eru með einhver einkenni en þau eru væg, að sögn Runólfs. Þar má nefna öndunarfæraeinkenni og flensulík einkenni. 

„Í morgun voru fimmtán til sextán einstaklingar með það sem við köllum miðlungsslæm einkenni. Það er þá gjarnan hár hiti, hósti og kannski þyngsli í brjósti. En það er enginn í eftirliti hjá göngudeildinni með það sem við myndum kalla alvarleg einkenni, “ segir Runólfur. 

Nú liggja þrír á sjúkrahúsi með COVID-19, tveir þeirra vegna lungnabólgu sökum COVID19-sýkingar en sá þriðji liggur inni af öðrum ástæðum en er jafnframt smitaður af kórónuveirunni.

Bólusetning hefur skilað mjög miklu

„Þetta er allt annað en það sem við höfum séð í fyrri bylgjunum þannig að bólusetningin hefur skilað mjög miklu hvað þetta snertir. En við erum enn að átta okkur á því hvernig þetta þróast, það er kominn skammur tími frá því að fólk smitaðist í flestum tilvikum. Og við vitum af fyrri reynslu að ef fólk veikist alvarlega þá gerist það kannski ekki fyrr en á sjötta eða sjöunda degi og jafnvel síðar, “ segir Runólfur. 

Mestar áhyggjur af viðkvæmustu hópunum

Runólfur segir viðkvæmustu hópana vera helsta áhyggjuefnið þessa stundina, þar megi nefna aldraða og einstaklinga með bælt ónæmiskerfi. Hingað til hefur lítið verið um smit í þeim hópum en Runólfur segir að þó séu hátt í fimmtíu smitaðir einstaklingar í áhættu. Áhættan sé þó ekki endilega mjög há, stigsmunur sé á öllu. Fara þurfi þó varlega í sakirnar þangað til að við sjáum hvernig veiran hagar sér hjá þessum viðkvæmu hópum en bólusetning hafi vafalaust gríðarlega mikil áhrif. 

Sóttvarnaaðgerðirnar hóflegar og vandaðar

Aðspurður segir Runólfur sóttvarnaaðgerðirnar sem gripið var til síðasta föstudag vera vandaðar og hóflegar í ljósi þess að flestir landsmenn eru bólusettir. Mikilvægt sé að koma í veg fyrir að smit dreifist um allt samfélagið og lami margs konar starfsemi svo sem heilbrigðisþjónustu. 

„Við getum ekki látið þetta bara alveg afskiptalaust þá er hætt við að veiran berist í viðkvæma hópa í talsverðum mæli sem getur haft alvarlegar afleiðingar,  “ sagði Runólfur Pálsson, yfirmaður göngudeildar COVID á Landspítala, í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.