
Hvetja Bandaríkin til að hætta að „skrímslavæða“ Kína
Markmið fundarins er að reyna að komast að einhvers lags grunnsamkomulagi sem komið getur í veg fyrir að samskipti ríkjanna versni enn frekar frá því sem nú er, vegna deilna um mannréttindi, netöryggi, alþjóðaviðskipti, gengismál og fleira.
Alvarlega misráðinn hugsunarháttur og hættuleg stefna
„Von manna er kannski sú, að með því að skrímslavæða Kína geti Bandaríkin á einhvern hátt [...] kennt Kína um eigin, kerfislæga vanda," segir í greinargerðinni um það sem sagt var á fundinum. „Við hvetjum Bandaríkin til að víkja frá þessum afar misráðna hugsunarhætti og hættulegu stefnu." Fullyrt er að Bandaríkin líti á Kína sem „ímyndaðan óvin" og að pattstaða sé uppi í samskiptum ríkjanna sem geti leitt til „alvarlegra örðugleika."
Sherman mun einnig funda með Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, áður en hún snýr aftur til Washington. Bandaríska utanríkisráðuneytið lýsti því yfir í síðustu viku að vonir stæðu til þess að á fundunum gæfist tækifæri til að sýna stjórnvöldum í Peking „hvað ábyrg og heilbrigð samkeppni felur í sér í raun" en forðast þó allar deilur.
Sherman er annar háttsetti bandaríski embættismaðurinn sem heimsækir Kína eftir að Joe Biden tók við forsetaembættinu. John Kerry, sérlegur erindreki Bandaríkjasatjórnar í loftslagsmálum, fór þangað til fundar við kínverskan kollega sinn í apríl.