Hélt í vonina um annað og betra

Mynd: Ágúst Örn Börgesson Wigum / Aðsend

Hélt í vonina um annað og betra

26.07.2021 - 10:59

Höfundar

„Auðvitað er maður að bera sig saman við aðra sem eru með manni í tíma, en þegar upp er staðið ert það bara þú sem uppskerð það sem þú sáir,“ segir dansarinn og tónlistarmaðurinn Benedikt Gylfason. Þegar meiðsli settu strik í reikninginn á dansferlinum byrjaði hann að semja tónlist af krafti.

Dansarinn og tónlistarmaðurinn Benedikt Gylfason sendir frá sér sitt fyrsta lag í dag. Benedikt komst í úrslit Músíktilrauna fyrir skemmstu en hann hefur einbeitt sér að ballett undanfarin ár og stundað dansnám af kappi. Meiðsl settu strik í dansreikninginn og því hefur hann einbeitt sér að tónlistarsköpun á meðan hann jafnar sig af þeim. Hann kom í Morgunútvarpið á Rás 2 og sagði frá dansinum og nýja laginu. „Ég byrjaði sex ára að læra á píanó og þannig byrjaði minn tónlistarferill. Strax um tólf ára var ég farinn að semja klassíska tónlist,“ segir hann. Það leið þó ekki á löngu þar til hann fann að áhuginn væri meiri á popptónlist og í dag er hann nítján ára og semur popp.

Benedikt hefur alltaf haft áhuga á söngleikjum og hann fór í áheyrnaprufu fyrir Billy Elliott. Hann komst svo langt að hann endaði í lokaúrtakinu sem æfði allt sumarið en var ekki valinn í hlutverkið. Ferlið varð honum þó hvatning til að sækja um í Listdansskóla Íslands þar sem hann æfði í fimm ár. Að þeim loknum fór hann til Óslóar að læra og hefur síðan keppt á erlendri grundu bæði fyrir hönd Íslands og Noregs.

Dansheimurinn getur verið harður en Benedikt minnir sig á að hann stundar dansinn fyrst og fremst fyrir sjálfan sig. „Auðvitað er maður að bera sig saman við aðra sem eru með manni í tíma, en þegar upp er staðið ert það bara þú sem uppskerð það sem þú sáir.“ Aðspurður hvort það séu margir strákar í ballett segir hann að svo sé ekki en þeim fari fjölgandi. „Ég var á tímabili nánast sá eini í skólanum mínum og það var alveg erfitt,“ segir hann.

Lagið Diamond semur Benedikt sjálfur. „Ég samdi það í fyrra í lagasmíðaáfanga í menntaskólanum og þetta var fyrsta verkefnið sem við fengum í áfanganum,“ rifjar hann upp. Verkefnið var að velja orð og skrifa svo allt sem hvarflaði að manni þegar hugsað væri um orðið í tíu mínútur. „Svo átti ég að hætta.“ Að tíu mínútum liðnum átti að lesa textann yfir og velja úr honum bestu setningarnar. „Út frá því sem ég textann og lagið.“ Boðskapur lagsins er að þegar einar dyr lokast þá opnist aðrar. „Það á við í mínu lífi,“ segir Benedikt.

Hann lýsir laginu sem svo: „Lagið er ein stór myndlíking þar sem ég líki sjálfum mér við demantshring sem er hent til hliðar því hann er ekki nógu spennandi lengur. Þá þýðir hins vegar ekki að gefast upp, heldur halda í vonina um eitthvað annað og betra. Ég upplifði þetta sterkt með meiðslin í dansinum en þá ákvað ég að snúa mér að tónlistinni og leggja alla mína krafta þangað í bili.“

Það er nóg framundan hjá Benedikt, EP-plata á leiðinni í haust og vonandi tónleikahald og áframhaldandi lagasmíðar.

Rætt var við Benedikt Gylfason í Morgunútvarpinu á Rás 2.