Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Vill að ríkisstjórnin segi af sér vegna stöðunnar

25.07.2021 - 19:25
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Skiptar skoðanir eru meðal stjórnarandstöðunnar á þingi um hertar sóttvarnaaðgerðir og stefnu stjórnvalda í faraldrinum. Í dag eru tveir mánuðir til kosninga.

„Ég held að þetta hafi verið nauðsynlegt. Það er spurning hvort þetta sé nóg. Það er alltaf spurning með þetta PCR-próf á landamærunum því það eru jú landamærin þar sem lekinn er. Maður veltir fyrir sér hvort það þurfi að gera meira,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar.

„Þórólfur vill tveggja metra reglu. Ég treysti honum. Hann veit hvað hann er að segja,“ segir hún.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, segir nauðsynlegt að grípa inn í í ljósi stöðunnar og meta nauðsyn aðgerða á næstu vikum. „Í ljósi óvissunnar er skynsamlegt fyrir líf og heilsu, réttindi og efnahaginn að stíga inn í til þess að gefa okkur svigrúm til að meta stöðuna,“ segir hann.

„Mér sýnist þetta vera skynsamlegt á meðan við erum að bíða og sjá hvernig þetta delta-afbrigði fer í þjóð sem er svona vel bólusett. Eins metra regla í stað tveggja metra reglu þýðir að ýmiss konar athafnir og atvinnur geta átt sér stað,“ segir Jón.

Hanna Katrín Friðriksson, formaður þingflokks Viðreisnar, telur að það vanti skýrari skilaboð frá ríkisstjórninni um hver markmiðin með aðgerðunum eru. 

„Ef að markmiðin eru þau sömu og þau hafa verið, það er að segja að vernda heilsu fólks og koma í veg fyrir að hér fyllist allir spítalar af veiku fólki, þá er þetta yfirdrifið. Ef að markmiðin eru orðin ný og eru þau að forðast smit í samfélaginu þá má segja að það hafi verið mistök að opna landið jafn mikið og gert var og fara ekki fram á neikvæð PCR-próf frá upphafi,“ segir hún.

„Við hefðum líklegast reynt að halda haus með markmiðin um heilbrigði. Ekki fara svona bratt yfir í það að skipta þeim yfir í smitin,“ segir Hanna og bætir því við að það hefði verið skynsamlegt að fara hægar í að afnema PCR-próf á sínum tíma.

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, segir ekki ástæðu til að herða takmarkanir á landamærunum, frekar þurfi að skerpa á fyrirkomulagi í kringum vottorð.

„Þetta er náttúrulega ekki einföld staða sem komin er upp en ég minni þó á að heilbrigðisráðherra lofaði því að 1. júlí væri lífið á sinni eðlilegu braut á ný en svo er nú ekki. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin er ósamstíga í þessu og það er mjög slæmt. Það vantar yfirsýnina og þetta er greinilega ekki að ganga eins og þau ætluðu,“ segir hann.

„Við hefðum viljað sjá að það hefði verið farið öðruvísi í ákveðnar aðgerðir. Til dæmis var ótímabært að opna fyrir skemmtistaði til morguns,“ segir Birgir. „Ég held að það sé nauðsynlegt að fara yfir stöðuna á landamærunum varðandi vottorð og annað slíkt. Ég sé ekki ástæðu til að vera að herða þar,“ segir hann.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, er ómyrk í máli um stöðu faraldursins og hertar sóttvarnaaðgerðir. „Niðurstaðan er sú í rauninni að hafa okkur að fíflum, eins og mér finnst við hafa verið höfð að. Við erum dregin niður í Laugardalshöll og talin trú um það að allt sé gott með því að fara í bólusetningu en svo allt í einu núna þá er stærsti hlutinn af þeim sem eru að veikjast af þessari veiru fullbólusettur þannig að betur má ef duga skal,“ segir hún.

Þá leggur hún til hertar aðgerðir á landamærunum. „Það er bara sóttkví og aftur sóttkví. Við viljum sjá nýsjálensku leiðina, sem hefur reynst langfarsælust. Þeir sem telja sig þurfa að koma um landamærin þurfa skilyrðislaust að fara í sóttvarnarhús,“ segir Inga.

Eru þessi staða sem upp er komin í faraldrinum áfellisdómur fyrir stjórnvöld?
„Þetta er meira en áfellisdómur fyrir stjórnvöld. Þau ættu ekki bara að biðjast afsökunar, þau ættu að stíga til hliðar, axla ábyrgð og segja af sér,“ segir Inga.