Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Nokkrir til rannsóknar vegna gruns um endursýkingu

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Vísindamenn Landspítalans rannsaka nú nokkur tilvik þar sem grunur leikur á að fólk hafi sýkst af COVID-19 í annað sinn. Yfirlæknir smitsjúkdómadeildar spítalans segir veiruna svo útbreidda að hún gæti sett starfsemi margra stofnana og fyrirtækja í uppnám.

Staðan sem er komin upp í baráttunni við faraldurinn, er á margan hátt alveg ný. Bóluefnin virka ekki eins vel gegn hinu bráðsmitandi Delta-afbrigði og vonir stóðu til, og smitin virðast mun útbreiddari í samfélaginu heldur en í fyrri bylgjum. 

Í fyrstu bylgjunni voru það þeir sem voru að koma erlendis frá, skíðasvæðum og svo framvegis, síðan fór þetta að verða útsetning á bar eða íþróttahúsi eða einhverju slíku. Núna er þetta þannig að þetta er eiginlega úti um allt. Þetta eru smáveislur, smásamkomur, veitingastaðir, veiðihús. Þetta virðist vera alls staðar í samfélaginu.
- Már Kristjánsson yfirlæknir

Þriðja farsóttarhúsið í Reykjavík verður tekið í notkun í dag og nú eru yfir 130 sjúklingar þar í einangrun. Heilbrigðisyfirvöld gera ráð fyrir því að mikill fjöldi einkennalausra sé smitaður án þess að vita það. Már segir eina mestu ógnin núna vera veikindi og sýkingar stórra hópa í stofnunum og fyrirtækjum. 

„Og komi þess vegna inn á vinnustaðinn og geta þá valdið rekstrarógn í viðkomandi fyrirtæki.”

Nokkrir til skoðunar vegna mögulegra endursýkinga

En það eru þó fleiri, og öllu alvarlegri atriði, sem vísindamenn eru nú að skoða. 

„Við höfum reynslu af því, því miður, úr fyrri bylgjum, að einstaklingar sem eru með til dæmis krabbamein í blóðlíffærum, að þeir hafi átt í vandræðum með að komast yfir sýkingarnar. Það er ógnvekjandi.”

Það eru að koma upp tilvik þar sem grunur leikur á að fólk sé að sýkjast í annað sinn, fólk sem hefur orðið veikt af COVID og jafnað sig, að það sé að sýkjast aftur, hvernig er það hér? 

„Já, við höfum ekki farið varhluta af þessari umræðu. Það eru til skoðunar núna nokkur tilfelli hér á Íslandi, ein þrjú eða fjögur tilfelli, þar sem þessi staða er uppi. En ég get ekki tjáð mig frekar um það. Þetta er eitthvað sem væru ekki góðar fregnir, en við verðum að fylgjast með.”