Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Miklar samfélagslegar afleiðingar þó að færri veikist

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir óttast að þessi bylgja faraldursins verði sú stærsta hér frá því faraldurinn hófst og geti haft miklar samfélagslegar afleiðingar, þó að færri veikist alvarlega. Tveir starfsmenn Landspítala og einn sjúklingur greindust í fyrradag með COVID-19. Gerð var umfangsmikil rakning og voru tveir sjúklingar og níu starfsmenn settir í sóttkví vegna smitanna. Þórólfur segir mikilvægt að vernda viðkvæma starfsemi.

Meðalaldur þeirra sem greinast nú er rúmlega þrjátíu ár en aldursbilið er breitt, nær frá ungum börnum og til fólks yfir áttrætt. Þórólfur segir að smitin og sóttkví sem þeim fylgi geti haft mikil áhrif. „Ég held að við gætum alveg verið að horfa upp á stærri bylgju núna. Við erum líka að taka fleiri sýni núna en áður og margir að greinast sem eru með lítil eða engin einkenni þannig að maður þarf aðeins að túlka þetta út frá því en við getum alveg séð verulegar afleiðingar af þessari útbreiðslu, ekki bara vegna alvarlegra veikinda heldur vegna útbreiðslunnar sem við þurfum að tempra, setja fólk í einangrun og sóttkví út af því að þeir eru kannski að vinna með viðkvæma einstaklinga sem að við viljum alls ekki að smitist, þannig að afleiðingar geta verið dálítið miklar, þjóðfélagslega,“ segir Þórólfur. 

Nýjar sóttvarnarreglur tóku gildi á miðnætti. Fjöldatakmarkanir miðast við 200, eins metra nálægðarregla og grímuskylda innanhúss þar sem ekki er hægt að tryggja þá reglu. Þórólfur hefði kosið að tveggja metra reglan hefði verið tekin upp að nýju á miðnætti, en ríkisstjórnin ákvað að láta eins metra reglu duga. Nú þurfi að sjá hvort þetta dugi til, annars þurfi að herða aðgerðir. „Við þurfum bara að vinna með það, vonandi mun það skila tilætluðum árangri og ég vona bara að þessar reglur muni skila þeim árangri að faraldurinn fari niður, ef að það gerist ekki og hann fer áfram upp og við förum að sjá miklar afleiðingar þá fyrir mitt leyti þarf ég bara að endurskoða mínar tillögur," segir Þórólfur.