Beitti lögreglan bæði táragasi og háþrýstidælum til að dreifa mannfjöldanum þegar um fjögur þúsund manns söfnuðust saman utan við þinghúsið í miðborg Aþenu til að mótmæla lögum um skyldubólusetningu fólks í nokkrum starfsstéttum.
Táragas og háþrýstidælur gegn bólusetningarandstæðingum
Er þetta í þriðja sinn sem blásið er til mótmæla gegn lögunum. Þau kveða á um að allt starfsfólk í heilbrigðisþjónustu og umönnunarstörfum, jafnt hjá hinu opinbera sem í einkageiranum, skuli láta bólusetja sig áður en ágúst er úti en fara í ólaunað leyfi að öðrum kosti. Þetta á líka við um fólk í ýmsum störfum öðrum þar sem smithætta telst mikil.
Ítalir mótmæltu „græna passanum“
Á Ítalíu gengu tugir þúsunda um götur og torg helstu borga landsins og kyrjuðu slagorð á borð við „Frelsi!", „Niður með harðstjórnina!" og „Engan grænan passa!" Með hinu síðastnefnda er átt við skírteini fyrir fólk sem er ýmist fullbólusett, búið að ná sér af COVID-19 sýkingu eða með nýtt, neikvætt COVID-19 próf upp á vasann.
Frá og með 6. ágúst veitir græni passinn handhöfum hans mun meira frelsi til athafna en hinum, sem óbólusett eru. Munar þar mestu um heimild til að njóta veitinga og skemmtana og afþreyingar innan um annað fólk innanhúss; á veitingahúsum, kvikmyndahúsum, söfnum, sundlaugum og svo má áfram telja.
Mótmæli í Frakklandi og Ástralíu
Í Frakklandi kom líka til átaka lögreglu og mótmælenda í gær. Þar, rétt eins og á Ítalíu, mótmælti fólk áformum um að framvísa þurfi vottorði um bólusetningu eða neikvætt COVID-próf á opinberum stöðu á borð við veitingastaði og kvikmyndahús.
Og í Sydney í Ástralíu sló einnig í brýnu milli lögreglu og borgarbúa sem hafa fengið sig fullsadda af útgöngubanninu sem þar hefur verið í gildi vikum saman vegna mikillar útbreiðslu delta-afbrigðis kórónaveirunnar þar í borg.