Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Landspítali kallar fólk inn úr sumarfríi

25.07.2021 - 13:48
Mynd: Landspítalinn / Landspítalinn
Stjórnendur Landspítala eru byrjaðir að kalla starfsfólk inn úr sumarfríi og fresta töku orlofs sökum þess að starfsmönnum í sóttkví hefur fjölgað töluvert. Þetta segir Sigríður Gunnarsdóttir, starfandi forstjóri. Þeim fjölgar hratt sem eru í eftirliti á COVID-göngudeildinni.

Fjórir eru inniliggjandi á spítala með COVI-19. Sigríður segir að þeim fjölgi hratt þeim sem eru í eftirliti á COVID-göngudeild, þau eru orðin 544. „Það er 21 gulur sem þýðir að þau eru með umtalsverð einkenni sem þarf að fylgja vel eftir. Og þar að auki er þó nokkur fjöldi  með undirliggjandi áhættuþætti sem kallar á sérstakt eftirlit líka.“

Sigríður segir starfsmönnum í sóttkví hafa fjölgað töluvert. Níu starfsmenn eru í einangrun og 22 í sóttkví. „Það er eitthvað um það að við erum farin að kalla fólk úr sumarleyfum og aðrir að fresta töku orlofs, þannig að við bara metum það í hverju tilfelli fyrir sig hvaða viðbrögð eru nauðsynleg,“ segir Sigríður. 

Hlýða má á viðtal við Sigríði í hádegisfréttum í spilaranum hér að ofan. 

Uppfært kl. 14:52: Á covid.is kemur fram að fjórir séu á spítala vegna COVID-19. Fréttinni var breytt í samræmi við það.