Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Forsetinn rak forsætisráðherrann og tók sér öll völd

25.07.2021 - 23:37
Erlent · Afríka · Túnis · Stjórnmál
A Tunisian police officer scuffles with protesters during a demonstration in Tunis, Tunisia, Sunday, July 25, 2021. Violent demonstrations broke out on Sunday in several Tunisian cities as protesters expressed anger at the deterioration of the country's health, economic and social situation. (AP Photo/Hassene Dridi)
 Mynd: AP
Kais Saied, forseti Túnis, rak í kvöld forsætisráðherra landsins og skikkaði þingið í leyfi, eftir mikil og fjölmenn mótmæli gegn forsætisráðherranum og flokki hans um land allt. Saied tilkynnti þessa ákvörðun sína að loknum neyðarfundi í forsetahöllinni, við mikinn fögnuð mótmælenda. Talsmenn stjórnarflokksins Ennahdha, fordæmdu hins vegar ákvörðun forsetans og saka hann um valdarán.

Tugir þúsunda Túnisa söfnuðust saman í nokkrum helstu borgum Túnis í dag, hrópandi slagorð gegn ríkisstjórninni, Ennahdha-flokknum og forsætisráðherranum Machichi, og kröfðust þess að þing yrði rofið og efnt til kosninga.

Má ekki rjúfa þing en getur stöðvað starf þess

Í yfirlýsingu sinni sagði forsetinn að stjórnarskráin leyfði honum ekki að rjúfa þing. 80. grein hennar heimilaði honum aftur á móti að stöðva þingstörf ef „bráð hætta“ vofi yfir. Því hafi hann ákveðið að stöðva störf þingsins í 30 daga. Sagðist hann yfirtaka framkvæmdavaldið „með aðstoð“ ríkisstjórnar undir forsæti nýs forsætisráðherra, sem hann muni sjálfur skipa. Jafnframt tilkynnti hann að þingmenn muni ekki njóta þinghelgi á meðan þingstörf liggja niðri.

„Valdarán gegn byltingunni og stjórnarskránni“

Í færslu á Facebook-síðu stjórnarflokksins Ennahdha er þessi ákvörðun forsetans fordæmd. „Það sem Kais Saied er að gera er valdarán gagnvart byltingunni og stjórnarskránni, og meðlimir Ennahdha og túníska þjóðin munu verja byltinguna,“ segir í færslunni.

Óstjórn, efnahagsþrengingar og heimsfaraldur

COVID-19 geisar af meiri þunga í Túnis en heilbrigðiskerfið ræður við og minnst 18.000 Túnisar hafa dáið úr sjúkdómnum svo vitað sé. Farsóttin bætist ofan á óstöðugleika í stjórnmálum, bágborið efnahagsástand, lélega innviði og stjórnsýslu í molum, sem illa hefur gengið að koma á réttan kjöl á þeim tíu árum sem liðin eru frá því að einræðisherranum Zine El Abidine Ben Ali var steypt af stóli.

Pólitískt reiptog forsetans Saieds, sem kjörinn var 2019, við forsætisráðherrann Mechichi og flokk hans, sem hefur íslömsk gildi í hávegum, hefur svo tafið nauðsynlegar úrbætur enn frekar.