Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Enn einn líklegur mótframbjóðandi Ortegas handtekinn

25.07.2021 - 01:53
A youth carries a portrait of Nicaraguan President Daniel Ortega during commemorations for the anniversary of the triumph of the 1979 Sandinista Revolution that toppled dictator Anastasio Somoza in Managua, Nicaragua, late Sunday, July 18, 2021. (AP Photo/Miguel Andrés)
Ung kona heldur á mynd af byltingarhetjunni Ortega, þar sem hún er á leiðinni á hátíðarhöld vegna byltingarafmælis sem fram fóru fyrr í þessum mánuði Mynd: AP
Daniel Ortega og ríkisstjórn hans í Níkaragva halda uppteknum hætti við pólitískar hreinsanir í aðdraganda forsetakosninga þar í landi. Sjöundi maðurinn sem orðaður hefur verið við mótframboð gegn Ortega var handtekinn í gær og er nú í stofufangelsi. Sá handtekni, hægrimaðurinn Noel Vidaurre, er sakaður um að hafa „grafið undan fullveldi og sjálfstæði Níkaragva,“ líkt og aðrir mótframbjóðendur Ortegas.

Þeir eru allir sakaðir um að hafa lagst á eitt með fjandsamlegum, erlendum öflum - einkum Bandaríkjunum - og unnið gegn hagsmunum og sjálfstæði Níkaragva með einhverjum hætti. Alls hafa nú 28 áhrifamiklir andstæðingar og gagnrýnendur Ortegas og ríkisstjórnar hans verið handteknir frá því í júníbyrjun, á grundvelli afar umdeildrar löggjafar um öryggi ríkisins og fullveldis þess.

„Óumdeilanlegur sigur“ Ortegas í komandi kosningum

Forsetakosningar verða í Níkaragva í nóvember. Þótt Ortega hafi enn ekki formlega tilkynnt framboð sitt efast enginn um að hann ætli að sitja sem fastast. Forseti þingsins lýsti því yfir á mánudag að Ortega myndi ekki einungis bjóða sig fram, heldur yrði sigur hans „óumdeilanlegur.“

Þaulsætinn forseti með einræðistilburði

Sósíalistinn Ortega var leiðtogi Níkaragva frá 1979 - 1990, fyrst sem leiðtogi hinnar sósíalísku Sandinista-byltingarhreyfingar og síðan sem fyrsti, lýðræðislega kosni forseti landsins. Hann komst svo aftur til valda árið 2007 og situr enn. Kona hans, Rosario Murillo, hefur gegnt embætti varaforseta frá 2017.

Mannréttindasamtök innan og utan Níkaragva saka Ortega um sívaxandi einræðis- og harðstjórnartilburði hin síðari ár. Stjórnarandstæðingar og gagnrýnendur forsetans séu iðulega handteknir og ákærðir fyrir upplognar sakir, sem studdar séu fölsuðum sönnunargögnum.