Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Delta margfalt meira smitandi þrátt fyrir bólusetningar

25.07.2021 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Nýgengi innanlandssmita er komið upp í 135 eftir að 88 greindust jákvæðir í gær, nær allir bólusettir og flestir utan sóttkvíar. Um 440 manns hafa greinst með Covid-19 undanfarna sex daga, meira en 300 voru utan sóttkvíar. Stór hópsýking greindist hjá framhaldsskólanemum eftir útskriftarferð erlendis. Yfirlögregluþjónn segir delta-afbrigðið svo smitandi að hver einstaklingur geti hæglega smitað yfir sjö manns, þó að allir séu bólusettir.

Langflestir bólusettir og utan sóttkvíar

Nú eru um 550 manns í einangrun á Íslandi með Covid-19 og yfir 1.600 í sóttkví. Smittölurnar hafa verið mjög háar undanfarið, en síðustu fimm daga hafa 350 manns greinst með delta afbrigði veirunnar innanlands. Í dag bættust við 88 og hafa því alls 437 greinst jákvæð síðan þessi fjórða bylgja faraldursins fór af stað fyrir tæpri viku. Mikill meirihluti hefur verið utan sóttkvíar við greiningu og langflest fullbólusett. Þá ber að taka fram að töluvert færri fóru í sýnatöku í gær heldur en í fyrradag, þegar 3 prósent einkennasýna voru jákvæð, en hlutfallið var 4,6 prósent í gær.

Einn getur smitað fleiri en sjö manns

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir þetta óvenjuhátt hlutfall, líka miðað við fyrri bylgjur. Mjög margir eru með töluvert mikil einkenni og í daglegu eftirliti. 

„Það sem við erum að sjá eru ekkert endilega stórar samkomur. Kannski 20 manna afmæli, kannski 4 eða 5 smitaðir, erfidrykkjur og fleira þar sem eru að detta inn á hverjum degi eitt og eitt smit.”

Hver einstaklingur er að smita fleiri en áður. Við höfum oft séð hópa þar sem hefur komið upp smit og einn, tveir eða þrír smitast, en núna erum við að sjá að einn einstaklingur er að smita 5, 6 eða 7 alveg auðveldlega og meira en það þegar verst lætur. 

Stærsta hópsýking fjórðu bylgjunnar til þessa

Yfir þrjátíu nemendur Flensborgarskólans í Hafnarfirði greindust jákvæð við komuna til landsins frá Krít í fyrradag. Víðir segir þau öll hafa farið í sýnatöku á landamærunum og allir 120 farþegar vélarinnar eru í sóttkví. Þetta er stærsta hópsýkingin sem hefur greinst í þessari bylgju. 

Ég reikna með að flestallir úr þessum hóp fari í sýnatöku í dag. Þannig að það fer að koma í ljós hver heildartalan í þessu er, en það eru ansi margir með einkenni sem voru ekki búnir að fara í sýnatökur.